Gunnar Sigurfinnsson (59) rifjar upp hremmingar:

Gunnar Sigurfinnsson var hætt kominn fyrir fjórtán árum síðan en þá var hann næstum drukknaður í Kleifarvatni. Gunnar var í viðtali hjá Séð og Heyrt á þeim tíma og ræddi um þessa lífsreynslu. Nú fjórtán árum síðar er hann aftur í viðtali og rifjar þennan afdrifaríka dag upp ásamt því að fara yfir bataferil sinn og adrenalínfíkn sína.

GÓÐUR: Gunnar er hér ásamt Elínu Agnarsdóttur sem er langt komin með að gera hann að göngugarpi.

GÓÐUR: Gunnar er hér ásamt Elínu Agnarsdóttur sem er langt komin með að gera hann að göngugarpi.

Óljóst „Það komu smátt og smátt meiri, betri og skýrari minningar sem tíndust saman. Fyrst mundi ég lítið eftir deginum nema þegar við lögðum af stað og ég var að ganga niður fjöruna en síðan hafa komið brot frá köfuninni sjálfri,“ segir Gunnar þegar hann rifjar upp hremmingarnar.

„Ég man eftir því þegar ég varð loftlaus og hugsaði: Nú er ég í djúpum skít. Þegar ég synti niður til Braga Reynissonar, sem var að leiðbeina okkur, og horfði á hann þá var allt svart í kring nema ljósin okkar, ég gaf honum merki og fékk varalungað hans. Þegar við lögðum af stað upp þá náði ég ekki að þrýstijafna mig og við skutumst saman upp eins og korktappi.

Á landleiðinni hætti líkaminn smátt að hlíða mér og ég dróst aftur úr. Síðan fékk ég öldu framan í mig saup vatn, fékk kuldatilfinningu um líkamann og man ekki meir.“

 

Eins og áhorfandi

„Það er skrítið með þessar minningar, það voru engar tilfinningar hjá mér, það er eins og ég hafi verið áhorfandi að þessu öllu saman. Það einhvern veginn skipti engu máli hvað geriðst, þetta bara gerðist. Það er erfitt að lýsa þessu. Fjölskyldan segir mér að þegar ég var vakinn upp á gjörgæslunni þá hafi ég skammast yfir því að hafa ekki upplifað neitt sérstakt,“ segir Gunnar og hlær.

„Ásgeir Már Ólafsson, sem var einnig að kafa með mér, byrjaði að synda til baka, þá var ég fljótandi, meðvitundarlaus og með andlitið í vatninu. Hann byrjaði að blása í mig lífi á vatninu og vann svo þrekvirki með því að synda með mig til baka á móti veðrinu. Hann var að örmagnaast sjálfur og sagði mér seinna að hann hafi hugsað á þeim tímapunkti að annað hvort yrði hann að láta mig fara eða við myndum báðir drukkna. Um leið og hann hugsaði þetta þá fann hann fyrir botninum.

Eftir að ég var farinn að anda sjálfur keyrði hann svo þrjá kílómetra til að finna símasamband. Hann bjargaði lífi mínu þennan dag, hann er hetjan mín.“

 

Spennufíkill

Gunnari þykir gaman að spennu og ögrun og vill hafa ögrandi markmið að stefna að. Það hefur því verið erfitt á köflum þegar líkaminn hefur ekki getað fylgt huganum eftir í áhugamálum.

„Ég prófaði golf í tvö ár en fékk ekki alveg nógu mikið adrenalín. Fór á fallhlífarstökksnámskeið en fékk svo enn meiri áhuga á svifvæng, paragliding, og ætla að skoða það betur. Ég er búinn að vera virkur jeppakall frá 1987 en nú er ég farinn að ganga meira og hreyfa mig, innanlands og erlendis. Hefði reyndar átt að gera það fyrr. Svo var ég svo heppinn að komast á Íslandsmót kjölbáta eftir að hafa bætt skútunámskeiði við gamla pungaprófið,“ bætir Gunnar við og spurður hvort hann sé ekki hræddur um að deyja í þessum jaðarsportum, og þá sérstaklega eftir reynsluna fyrir 14 árum, segir hann svo ekki vera.

„Ég er alls ekki hræddur við að deyja, ég held að það sé ekkert slæmt, ekki frekar en að fæðast en maður verður auðvitað að taka tillit til ættingjanna og ástæðulaust að taka óþarfa áhættu.“

 

Reykjalundur hjálpaði

Gunnar skaddaðist á heila og mænu daginn afdrifaríka en segir góða meðferð á Grensás og Reykjalundi hafa hjálpað mikið.

„Ég var frekjuhundur og skapstór fyrir slysið en er orðinn miklu ljúfari núna,“ segir Gunnar spurður að því hvað hafi breyst í fari hans eftir slysið.

„Bestu vinir mínir segja reyndar að ég hefði ekki getað versnað. Svo er annað, menn mega bara ekki missa bjartsýnina, jafnvel þótt hrunið hafi tekið eftirlaunasjóðinn og besti vinur þinn hafi svikið þig þá er svartsýni og biturð það versta sem menn geta gert sér.

Ég er sáttur við endurhæfinguna, fyrst á Grensás og síðan á Reykjalundi árið eftir. Seinna var ég svo heppinn að komast í hóp fyrir fólk með heilaskaða á Reykjalundi og þar lærðum við mjög mikið um það hvað gerist við heilaskaða og lærðum hvað við getum gert, eins og með minnisatriði og skipulag. Þar stofnuðum við félagið Hugarfar sem er virkt í dag og á Erlingur Smith heiðurinn af nafninu.“

„Það þarf að leggja ríkari áherslu á að hjálpa fólki að verða sjálfbjarga og komast aftur út á vinnumarkaðinn. Ég var svo heppinn að vera með mitt eigið fyrirtæki og missti það ekki vegna þess að ég hef traustan starfsmann og fjölskyldu sem tók við þessu á meðan ég var í mínu bataferli.

Ég var aldrei sammála þegar mér var bent á að sætta mig við ástandið, það á að peppa fólk upp, telja í það kjark og hjálpa því að missa ekki sjónar á lífinu. Það er ekki allt búið þó að starfsgetan breytist en það þurfa að koma fleiri úrræði fyrir fólk sem vill vinna.“

Lesið Séð og Heyrt á hverjum degi!

Related Posts