Ragnhildur Pála (61) vill helst keyra á 25 kílómetra hraða:

Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir, sérkennari, ljóðskáld og rektorsfrú á Bifröst, hélt að lögreglan væri að elta bankaræningja þegar blikkandi blá ljós lýstu upp Volkswagen Polo-bifreið hennar á Vesturlandsvegi. En lögreglan var með hana í sigti.

 REKTORSHJÓNIN: Vilhjálmur Egilsson og Ragnhildur Pála eru glæsileg hjón og búa nú mest í Borgarfirði þar sem hann er rektor á Bifröst og hún sérkennari í Varmalandsskóla.

REKTORSHJÓNIN: Vilhjálmur Egilsson og Ragnhildur Pála eru glæsileg hjón og búa nú mest í Borgarfirði þar sem hann er rektor á Bifröst og hún sérkennari í Varmalandsskóla.

Bílhrædd „Ég er bílrædd og keyri alltaf mjög hægt,“ segir Ragnhildur Pála sem oft þarf að aka úr Reykjavík og upp í Borgarfjörð þar sem eiginmaður hennar, Vilhjálmur Egilsson, fyrrum alþingismaður, er rektor á Bifröst en sjálf kennir Ragnhildur Pála í Varmalandsskóla þar rétt hjá.

Ragnhildur Pála segist helst vilja keyra á 25 kílómetra hraða og gerir það yfirleitt innanbæjar í Reykjavík en á þjóðvegi eitt reynir hún að halda sig á 60 kílómetra hraða – sem er reyndar allt of mikið fyrir hennar smekk. Og það var hægakstur hennar á þjóðveginum sem varð til þess að lögreglan setti allar sírenur og ljós í gang og þröngvaði henni út í vegkant sem var reyndar auðvelt því Ragnhildur Pálína ók svo hægt.

Sjálf lýsir hún atburðum þannig þegar lögregan hafði stöðvað hana og tekið hana tali:

„Þá kom glæsileg lögreglustúlku með glóandi rándýrsaugu og hélt því fram að ég keyrði alltof hægt og hlyti að vera full. Ég sagði henni sem satt var að ég keyrði alltaf afar hægt og væri mjög bílhrædd og myndi aldrei auka hraðann. Hún bað mig þá að blása í einhverja trekt sem hún var með. Gerði ég það að sjálfsögðu en ekkert kom út úr því. Vildi hún þá að ég leitaði að skilríkjum í veskinu og gerði ég það að sjálfsögðu en sagði henni eins og er að ég týndi flest öllu sem ég setti niður í töskuna, hún væri eins og svarthol. Hún vildi vita hvort ég myndi kennitöluna mína og aldrei þessu vant mundi ég hana. Hún hringdi niður á lögreglustöð til að athuga með ökuskírteini en það var allt í lagi með það. Þar sem að ég var ekkert að flýta mér sagði ég henni að ég vildi helst ekki keyra á meira en 25 km hraða og ég myndi aldrei keyra á þessum hraða sem hún óskaði eftir. Það endaði svo með því að hún stoppaði umferðina til að koma mér aftur á stað en bíllinn stóð eitthvað á sér. Loksins fór ég í gang og keyrði á 40-50 km hraða sem eftir var. Og komst lifandi upp á Bifröst.“

Aðspurð segist Ragnhildur Pálína alltaf aka með öryggisbelti spennt, ljós kveikt og gefa stefnuljós þegar við á: „Ég get bara ekki ekið hratt. Til þess er ég allt of bílhrædd.“

Related Posts