Vilhjálmur Svan (62) safnar til sín söfnurum:

Vilhjálmur Svan er maður margra handa. Þrælreyndur veitingastjóri með meiru sem og athafnamaður. Hann vann til margra ára hjá Samhjálp áður en honum var sagt þar upp störfum. Stuttu síðar keypti hann allan nytjamarkað Samhjálpar og opnaði nýverið glænýjan markað í gamla Fálkahúsinu við Suðurlandsbraut.

SH1502032220-2

RÚMGOTT: Villi lætur vel um sig fara áður … áður en rúmið verður selt.

„Ég var starfsmaður hjá Samhjálp til margra ára, síðan urðu breytingar á rekstrarfyrirkomulaginu þar og markaðnum var lokað. Þá sá maður fram á það að maður yrði atvinnulaus, þannig að maður setti bara í gírinn án þess að vita nákvæmlega hvað væri hægt að gera. Ég setti upp markaði fyrir Samhjálp á sínum tíma og fannst að það væri best að prófa að snúa mér að einhverju slíku aftur, athuga hvort það kæmi ekki eitthvað sæmilegt út úr því svo maður gæti látið gott úr sér leiða,“ segir Villi um snöggu upptökin og breytingaskeiðið eftir brottförina áður en hann ákvað að láta til skarar skríða. Tekur hann að vísu fram að uppsögnin frá Samhjálp skildi ekki nein særindi eftir sig, heldur tók hún með sér góðan hvata fyrir áframhaldið.

Villi er segulstál

„Ég er með þetta í mér,“ segir Villi skýrt. „Þetta er svona innbyggt. Það hefur alltaf verið svona segulstál í mér sem togar til sín svona dót. Svo hef ég óhemjugaman af þessu.“

SH1502032220-3

ÚRVAL: Af nægu er að taka hjá Vilhjálmi Svan á Suðurlandsbrautinni.

Að hans sögn er skemmtilegast að fá í hús eitthvert dót sem einhvern vantar. „Ef það kemur einhver bók hingað til okkar og einhver sér þarna mynd af pabba sínum eða sögu um mömmu, þá er hægt að selja þessa viðkomandi bók á einhvern 200 kall, og þá er viðkomandi glaður. Þetta er mjög smitandi tilfinning. Það er saga á bak við allt. Það þykir mér athyglisvert.“
Þrátt fyrir að markaðurinn hafi verið opinn í rúman hálfan mánuð er Villi strax farinn að smala til sín söfnurum. „Mjög margir safnarar koma hingað, í leit að merkjum eða peningaseðlum og svona ýmislegu dóti. Sumir eru með myndadellu, aðrir með bókadellu. Svo má ekki gleyma fatadellunni, enda erum við með gríðarlega mikið af fatnaði hér til sölu.“
Starfsmenn markaðarins hafa allir verið lengi í þessum bransa en auk þess að vera þrír í heildina eru samfélagsþjónar viðstaddir reglulega, sumir mæta bara einu sinni í viku, aðrir alla vikuna. „Þetta er félagastarfsemi og félagarnir hérna hafa atkvæðisrétt á aðalfundum. Ég er bara vinnumaður hérna og læt aðra sjá um peningamálin,“ segir Villi.

SH1502032220-1

FÉLAGAR: Vilhjálmur og Stefán Garðarsson, saman eru þeir í Kótelettuklúbbnum svokallaða.

Kótelettuklúbburinn

Vilhjálmur hefur mikla reynslu af rekstri og fjölbreytni, enda athafna- og veitingamaður til margra ára. „Ég er þessi týpa, þessi allra handa gæi,“ segir hann. „Ég vil ekki vera svona kóngur, en heldur ekki neinn forstjóri, því ég er trúlega versti maður ef ég kæmi inn á svona málefnalegan fund, til dæmis á Alþingi, þar væri ég handónýtur. Ég er góður hjá ráðherra, því það er stutt og laggott.“
Vilhjálmur bætir við að helstu aðstandendur nytjamarkaðarins nýja hafi allir unnið hjá Samhjálp á sínum tíma og misst vinnuna á svipuðu skeiði og hann sjálfur. Á meðal þeirra er góðvinur hans, Stefán Garðarsson, sem er með honum í Kótelettuklúbbnum, sem er „fyrsti Kótelettuklúbbur landsins“!
En hvernig lýsir Kótelettuklúbburinn sér?
„Kótelettuklúbburinn leyfir sér það að ræða ýmis mál opinskátt en það er allt skilið eftir að lokinni máltíð,“ segir Villi. „Þá verða allar umræður lokaðar af í húsinu. Þetta hjálpar hverjum og einum, í því sem hvað og hverjum finnst um hlutina.“
Þung málefni eru annars ekki í uppáhaldi hjá þessum klúbbi. „Þetta á að vera skemmtilegt. Við erum til dæmis ekkert í pólitíkinni. Þetta snýst meira um samverustundina og félagsskapinn.“

SH1502032220-5

SIGURVEGARI: Vihjálmur Svan sigraði fíknina og sjálfan sig.

Sigraði þræl fíknarinnar

„Mín saga er myrk til þrjátíu ára aldurs, frá fimmtan ára,“ segir Villi lítandi um öxl til fortíðar sinnar. „Þá var ég þræll fíknarinnar en hafði mig út úr því á endanum. Ég fékk góðan stuðning og náði mér út úr þessu.“
Vilhjálmur segir að hann sé ekki maður sem sér í skyndilausnum og að það standi á borðinu að láta hluta af ágóða nytjamarkaðarins til fólks sem er að ljúka meðferð og horfir fram á við. „Takmarkið almennt er að reyna að safna og setja í fleiri góð málefni,“ bætir hann við. „Við höfum t.d. ákveðið það að hluti af okkar innkomu fari í Ljósið. Svo erum við að finna annað málefni sem snýr að kvenfólki sem er í vandræðum, hvaða stofnun eða hvaða úrræði sem það verður, svo að það njóti góðs af því sem við erum með hér.“

Related Posts