Katrín Edda Þorsteinsdóttir (25) er fitnessverkfræðingur á fleygiferð:

 

Kata

VÉLAVERKFRÆÐINGURINN: Katrín þegar hún útskrifaðist sem vélaverkfræðingur frá Háskóla Íslands.

Katrín Edda Þorsteinsdóttir er ofurstelpa sem lætur sér fátt fyrir brjósti brenna og ekkert stöðva sig. Hún lauk Bsc.-námi  í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands 2012. Þá lá leið hennar til Karslruhe í Þýskalandi þaðan sem hún mun brátt ljúka meistaraprófi í orkuverkfræði frá hinum virta háskóla Karlsruhe Institute of Technology. Hún er í starfsnámi hjá þýska risfyrirtækinu Bosch og rannsakar þotuhreyfla fyrir Rolls Royce í lokaverkefni sínu. Meðfram þessu öllu hefur hún svo djöflast á fitnessæfingum og keppt víða um lönd í módelfitness.

 

Orkubúnt Katrín Edda Þorsteinsdóttir, meistaranemi í orkuverkfræði við Karlsruhe Institute of Technology, sem þykir einn þriggja bestu verkfræðiháskóla í Þýskalandi, ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í lokaverkefni sínu sem hún á að skila í lok nóvember.

„Meistararitgerðin er samstarfsverkefni milli skólans og Rolls Royce og í henni er ég að reikna kælinýtni mismunandi hannaðra kælihola í brunahólfum þotuhreyfla. Það er að segja, hvaða lögun á holunum kælir hólfin best,“ segir Katrín. Þær rannsóknir sem Katrín stundar eru kostnaðarsamar og Rolls Royce fer því þá leið að fá skólann hennar til þess að skera úr um hvaða holuhönnun sé hentugust áður en farið er út í enn dýrari þróunarvinnu í framhaldinu.

 

GÓÐIR FITNESSSAMNINGAR

Samhliða hinu krefjandi námi hefur Katrín æft fitness af kappi með góðum árangri. „Mér datt í hug að byrja í fitness þegar ég byrjaði í verkfræðinni og skil eiginlega ekki alveg af hverju, enda var þetta frekar erfitt. Ég var mætt á æfingu klukkan sex á morgnana og komin í skólann klukkan átta. Var þar til fjögur, skaust þá á æfingu og hélt svo áfram í skólanum til tíu á kvöldin. Meðfram þessu var ég í þremur vinnum og stundum á næturvöktum. Þá fór ég stundum beint af næturvakt á æfingu og þaðan í skólann. Þannig að þetta var eiginlega of mikið þá og ég var alveg uppgefin. En ég kláraði samt alltaf allt mitt og náði öllum prófum.“

Katrín byrjaði að keppa í módelfitness 2011 og þar hefur hún, eins og annars staðar, náð góðum árangri. Hún æfir yfirleitt 4-5 sinnum í viku og oftar þegar hún undirbýr sig fyrir fitnessmót. „Ég er búin að taka þátt í ellefu keppnum. Á Íslandi, Spáni, í Bandaríkjunum, Ungverjalandi og Austurríki. Ég er búin að keppa fjórum sinnum á þessu ári og náði besta árangrinum í apríl í Austurríki þar sem ég vann International Austrian Championship bæði í mínum hæðarflokki og svo heildarkeppnina. Ég náði svo öðru sæti á Íslandi og í Búdapest.“

Þá hefur Katrín nýlega gert samninga við tvö fyrirtæki í Þýskalandi, íþróttafatnaðarframleiðandann Gym Aesthetics og fæðubótarefnisframleiðandann PEScience, og verður andlit beggja í Þýskalandi. „Ég mun fara reglulega í myndatökur hjá Gym Aesthetics þegar þeir fá nýjan klæðnað og sömu sögu er að segja um PEScience sem styrkir mig með fæðubótarefnum og borgar kostnaðinn við þær keppnir sem mér hugnast að taka þátt í í framtíðinni.“

 

KataHJÁ RISANUM BOSCH

Í Karlsruhe Institute of Technology er nemendum í meistaranámi gert að skila verknámi og Katrín fékk tækifæri til þess að ljúka því hjá verkfræði- og rafmagnstækjarisanum Bosch. „Ég er búin að vera að vinna í ár hjá Bosch í Automotive Aftermarket-deildinni sem framleiðir greiningartæki fyrir allt sem viðkemur bílvélum og eldsneytiskerfum bíla. Ég var í framleiðsludeildinni þar og kláraði samninginn minn í febrúar en bauðst að halda áfram sem verknemi og mæti þangað einu sinni í viku en þetta er einnar og hálfrar klukkustundar ferð með lest frá Karlsruhe. Það er búið að vera ótrúlega lærdómsríkt og gaman að vinna hjá Bosch. Þess á milli vinn ég svo í meistaraverkefninu með Rolls Royce sem er rosalega spennandi.“

Katrín skilar lokaritgerðinni í næsta mánuði og er farin að líta í kringum sig eftir vinnu og vel má vera að hún eigi eftir að ílengjast hjá Bosch. „Ég sótti um hjá Bosch á öðrum stað í Þýskalandi fyrir stuttu. Ég fékk viðtal og fór í það hrikalega stressuð og spennt en það gekk frekar vel. Ég á enn eftir að fá svar frá þeim en yfirmaður minn á hinum staðnum segir að það sé bara góðs viti vegna þess að það taki styttri tíma að hafna fólki en að ráða það. Þannig að ég bind enn vonir við þetta.“

 

KLAPPAR LJÓNUM Í AFRÍKU

Áður en Katrín byrjar að vinna á fullu á sérsviði sínu ætlar hún að fá útrás fyrir ævintýraþörfina og fara sem sjálfboðaliði til Suður-Afríku í þrjár vikur og sinna þar ljónsungum og öðrum stærri kattardýrum.

KISUSTELPA: Katrín elskar ketti og getur ekki gengið fram hjá köttum, alveg sama hversu óhreinir og villtir þeir eru. Hér er hún með flækingskött í Taílandi í fanginu.

KISUSTELPA:
Katrín elskar ketti og getur ekki gengið fram hjá köttum, alveg sama hversu óhreinir og villtir þeir eru. Hér er hún með flækingskött í Taílandi í fanginu.

„Ég elska ketti. Ég elska öll dýr, skordýr líka, en ketti allra mest. Hérna í Þýskalandi eru stórar köngulær, þúsundfætlur og eitthvað alls konar hræðilegt á veggjunum hjá okkur og ég er bara úti um allt með box að bjarga þeim og hleypa þeim út,“ segir Katrín sem ætlar að láta ást sína á köttum draga sig alla leið til Suður-Afríku þar sem hún ætlar að hlúa að ljónsungum sem sjálfboðaliði í þrjár vikur.

„Ég er að fara til Bloemfontein í nágrenni Jóhannesarborgar í lok nóvember. Ég er búin að vera svo upptekin í náminu en mig hefur alltaf langað til að ferðast og gera eitthvað svona. Ég rakst á þetta sjálfboðastarf fyrir tæpu ári og fannst þetta vera sérsniðið fyrir mig. Að ferðast eitthvað út í buskann að sinna ljónum.

Ég sá samt ekki fyrir mér að ég myndi nokkurn tíma gera þetta en hugsaði svo með mér í sumar af hverju ég ætti ekki að nota tímann á milli þess sem ég klára ritgerðina og fer að vinna og skella mér bara í þrjár vikur til Suður-Afríku. Þarna eru ljón, púmur og gaupur og alls konar fínerí en vinnan er aðallega fólgin í því að sinna litlum ljónsungum, gefa þeim pela og leika við þá. Ég á að skila ritgerðinni 28. nóvember og fer til Afríku þann 30. þannig að það er eins gott að ég nái að klára,“ segir Katrín og hlær og lætur ritgerðarskilin tæpast vefjast fyrir sér.

Related Posts