Andrej Kiska (51) forseti Slóvakíu millilenti einkaþotu sinni í Keflavík:

 

Forseti Slóvakíu lagði lykkju á leið sína og millilenti einkaþotu sinni í Keflavík á leið til Bandaríkjanna. Óskaði hann sérstaklega eftir þessu enda hefur forsetinn lengi haft áhuga á Íslandi og þá ekki síst vegna góðra samskipta við Runólf Oddsson, konsúl Slóvakíu á Íslandi, sem bæði flytur inn kristal og hjólbarða frá Slóvakíu auk þess að senda mörg hundruð íslensk ungmenni út í læknanám til Slóvakíu ár hvert.

forseti Slóvakíu

HEILLAÐIST: Forseti Slóvakíu heillaðist strax af frísku lofti og fallegri birtu þegar hann sté út úr forsetaþotu sinni í Keflavík en Runólfur Oddsson konsúll fór upp allan landganginn til að taka á móti honum.

Góður gestur Vel var tekið á móti Andrej Kiska, forseta Slóvakíu, þegar hann steig út úr risastórri, rússneskri einkaþotu sinni á Keflavíkurflugvelli. Ekki var um opinbera heimsókn að ræða, heldur einkastopp forsetans. Á flugvellinum tók Runólfur Oddsson konsúll á móti honum og á flugbrautinni biðu tveir glæsilegir Tesla-rafmagnsbílar sem Gísli Gíslason lögfræðingur hafði lagt til svo forsetinn fengi að kynnast kostum þeirra.

„Tesla er einmitt með ráðagerðir um að byggja bílaverksmiðju í Slóvakíu,“ segir Runólfur konsúll sem fylgdi forsetanum um Suðurnes þá fjóra klukkutíma sem hann staldraði við.

Forsteinn vildi fara í Bláa lónið og var rafmagnsbílunum stefnt þangað.

„Þetta eru alveg frábærir bílar,“ segir Runólfur konsúll og deildi þeirri skoðun með forseta Slóvakíu sem var ekki síður hrifinn af Bláa lóninu og reyndar Suðurnesjum öllum í því blíðskaparveðri sem var.

Andrej Kiska er einn auðugasti maður Slóvakíu og var kjörinn forseti landsins í sumar og tók við embætti 15. júní. Kiska er viðskiptajöfur sem byggði auð sinn á fjárfestingabanka sem hann stofnaði og er vel látinn forseti meðal þjóðar sinnar sem kann vel að meta framsækni hans og skynsemi.

Eftir góða millilendingu og enn betra stopp hélt Andrej Kiska áfram ferð sinni vestur um haf en með honum í einkaþotunni var Frantisek Kasicky, sendiherra Slóvakíu með aðsetur í Osló í Noregi.

KVEÐJUSTUND: Andrej Kiska, forseti Slóvakíu, kveður Runólf Oddsson konsúl eftir skemmtilegar stundir á Suðurnesjum.

KVEÐJUSTUND: Andrej Kiska, forseti Slóvakíu, kveður Runólf Oddsson konsúl eftir skemmtilegar stundir á Suðurnesjum.

Related Posts