Ný þáttaröð á að vera fyrir fullorðna á öllum aldri:

ABC vinnur nú að nýrri þáttaröð um Prúðuleikarana (Muppet Show) en hinum nýju þáttum er ætlað að höfða meir til fullorðinna en barna. Þannig er ætlunin að kafa dýpra í bakrunn þeirra persóna sem mynda Prúðuleikarana og sambandið milli þeirra.

Þetta kemur fram í umfjöllun á vefsíðunni Entertainment Weekly. Söguþráðurinn í hinum nýju þáttunum gengur út á að Prúðuleikarnir eru að vinna að eigin sjónvarpsþætti. Verða þættirnir gerðir sem gerviheimildarmynd (mock documentary) í stíl við þætti á borð við Arrested Development og The Office.

Í yfirlýsingu frá ABC segir m.a. að þættirnir verði í stíl heimildarmynda þar sem, í fyrsta sinn í sögunni, verði fjallað um persónulegt líf og samskipti persónanna bæði heima og á vinnustað. Þetta á við um ástarsambönd, árangur, vonbrigði, væntingar og þrár. Þetta verði þáttur fyrir fullorðna á öllum aldri.

Á vefsíðunni er spurt hvort þetta þýði að ABC ætli sér að fara alla leið þannig að kynlíf komi við sögu í hinum nýju þáttum.

Related Posts