Alma Rut (35) er í náðinni hjá Bubba (58) og Bjögga (63):

Söngkonan Alma Rut Kristjánsdóttir er orðin óumdeild bakraddasöngkona Íslands en varla er slegið upp stórtónleikum á landi hér nema hún sé á sviðinu, oftar en ekki ásamt reyndasta og dáðasta tónlistarfólki landsins. Meðal þeirra sem hún hefur troðið upp með eru kóngarnir Bubbi Morthens og Björgvin Halldórsson, sem að sjálfsögðu komu fram við hana eins og prinsessu.

„Ég hef verið mjög heppin,“ segir Alma Rut um þann glæsilega hóp samstarfsfólks sem hún hefur unnið með undanfarin misseri og samsinnir því að „auðvitað sé hún svakalega góð“, um leið og hún skellir upp úr. „Maður reynir bara að standa sig og þetta hefur gengið rosalega vel.“

Auk Bubba og Björgvins hefur Alma Rut troðið upp með Páli Óskari, Sálinni hans Jóns míns, Todmobile og Genesis-manninum Steve Hackett, svo einhverjir séu nefndir. „Þeir eru yndislegir,“ segir Alma Rut um þá Bubba og Bjögga. „Það var algjör lúxus að vinna með þeim. Ég var eina stelpan í hópnum og þeir dekruðu við mig.“

Alma Rut er sviðsreynd og segist halda ró sinni á sviðinu með kanónunum. „Ég er búin að vera í þessu svo lengi og maður mætir bara og gerir sitt besta.“ Og það dugar til og vel það. „Það kemur samt auðvitað fyrir að maður stendur á sviðinu og á bágt með að trúa því. Eins og til dæmis þegar ég var með Todmobile í fyrsta skipti, þá hugsaði ég með mér: O my God! Ég er að syngja með Todmobile! Og svipað þegar ég söng með Bubba og Bó. Þá hugsaði ég: Jiminn, ég er bara hérna á sviðinu með þessum tveimur!“

Alma Rut

ALMA RUT: Heillandi á sviði.

Related Posts