Gunnþór Sigurðsson (54) lumar á ýmsu merkilegu:

 

gunnþór

FEÐGIN Á GÓÐRI STUND: Gunnþór og Erna, dóttir hans, en hún er í læknanámi í Slóvakíu.

Gunnþór Sigurðsson er skráður sem KR-ingur í símaskránni en hann er ekki einungis gallharður stuðningsmaður Vesturbæjarliðsins hann er líka bassaleikari pönksveitarinnar Q4U og afi sem hefur gaman af því að safna fágætum hlutum.

Fundvís „Ég byrjaði að safna hlutum strax sem krakki, gekk um Laugarnesið með prik og potaði niður hvar sem ég kom í þeirri von að ég fyndi fjársjóð. Ég var stundum heppinn, fann það sem aðrir kalla drasl en var sem gull fyrir mér,“ segir Gunnþór sem er mikill safnari.

Gunnþór starfaði lengi hjá RÚV í leikmuna- og leikmyndadeildinni og þar var sitthvað merkilegt að finna.

„Söfnunaráráttan fékk vissulega útrás í vinnunni, við vorum alltaf að gramsa eitthvað og fundum oft stórmerkilega hluti. Eitt sinn rakst ég á gamlan vindlakassa þar sem í reyndist vera forláta gullúr sem var orðið ófáanlegt. Ég safna líka rifnum og tættum peningaseðlum og hef hug á því að gera listaverk úr safninu mínu er fram í sækir.“
Dýrkaði Rannveigu og krumma
„Ég gleymi því aldrei þegar ég var að hefja störf uppi á Sjónvarpi og rakst á æskuhetjuna mína, Rannveigu úr Stundinni okkar, ég mætti henni á ganginum og fór að skjálfa í hnjánum og roðnaði og svitnaði til skiptis. Ég var á þessum tíma gallharður og húðflúraður pönkari sem varð alveg eins og kjáni þegar ég hitti hana. Ég hlæ enn að þessu.“

gunnþór

ÓMETANLEGT: Gunnþór hefur fengið tilboð í þennan miða nokkrum sinnum, en hann er ekki falur.

Áritun frá SLADE
„Ég á marga dýrgripi, dúkku sem fylgdi með blómunum sem mamma fékk frá pabba þegar ég tróðst í heiminn og svo aðgöngumiða á Slade-tónleikanna 1974, áritaða. Ég og félagarnir sátum fyrir hljómsveitinni á hótelinu þegar þeir komu hingað í fyrra skiptið, ég fékk áritun frá öllum nema trommaranum, hann var ekki á svæðinu, en ég á hana í dag. Hljómsveitin kom hingað aftur fyrir einhverjum árum síðan, ég fór auðvitað aftur og með miðann frá fyrri heimsókninni, sat fyrir trommaranum, sem rak auðvitað upp stór augu þegar hann sá áritun félaga sinna frá árinu 1974.
Nú er ég kominn með þá alla á blað. Það er mikill dýrgripur.“

 

gunnþór

FLOTTUR AFI: Gunnþór með afastrákana, Gunnþór Elís og Jón Inga.

Afi pönk
„Ég var í heimsókn hjá Ernu, dóttur minni, og litlu afaguttunum mínum. Þau búa í Slóvakíu þar sem hún er að læra læknisfræði, það fer vel um þau þarna. Ég finn samt hvað ég sakna litlu guttanna, ég er mikill afi og hef svo gaman af því að grallarast með þeim. Maður verður meir með aldrinum, gallharði bassaleikarinn úr Q4U er bara orðin afi, ég fór með guttunum á MacDonalds úti þar sem við fengum okkur risamáltíð og ís, það var skemmtilegt,“ segir Gunnþór greinilega sáttur við lífið og tilveruna.

Related Posts