Fólk er búið að fá sig fullsatt af stjórnmálamönnum og það fyrir löngu. Það vita þeir sem sýsla við að framleiða fréttir og selja og hafa vitað lengi.

Eitt sinn var reynt að setja þáverandi umhverfisráðherra á forsíðu Séð og Heyrt en Jónína Bjartmarz hafði þá nauðlent loftbelg í ljónagryfju í Afríku. Myndir fylgdu. En blaðið hreyfðist ekki í sölu.

Fyrir skemmstu var reynt að flagga núverandi umhverfisráðherra og eiginmanni hennar á forsíðu undir fyrirsögninni að hann veldi fötin á hana og að auki væru þau með sundlaug í garðinum. Salan hrapaði um helming.

Og svo mætti lengi telja.

Samt er alltaf verið að reyna að selja stjórnmálamenn þótt lítil sé eftirspurnin. Þeir einoka svo gott sem allar sjónvarpsfréttir svo ekki sé minnst á útvarpsfréttir þannig að börn halda að þeir séu þulir.

Þessi langvarandi þreyta almennings á stjórnmálamönnum kristallast nú í niðurstöðum skoðanakannana þar sem lítill, innfluttur jaðarflokkur sópar til sín þingmönnum í þvílíkum mæli að flokkurinn á þá ekki einu sinni til á lager.

Svanur Kristjánsson stjórnmálafræðiprófessor segir að Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sé glæsilegasta foringjaefni sem fram hafi komið í íslenskri pólitík um áratugskeið og er þá Ólafur Ragnar meðtalinn.

Séð og Heyrt ætti kannski að reyna að fá innlit hjá Helga Hrafni, mynda hann í stofunni heima, í eldhúsinu að hella upp á eiríkur jónssonkönnuna eða jafnvel í baði og skoða svo sölutölurnar.

En það er líklega fyrir fram vonlaust. Kjósendur vilja eitthvað annað en frambjóðendur. Þeir vilja eiga sér líf – skemmtilegt líf og þar eiga stjórnmálamenn sem minnst að koma nærri.

Eiríkur Jónsson

Related Posts