Sigurgeir Orri Sigurgeirsson rithöfundur (48) í basli:

Sigurgeir Orri hefur verið búsettur í Hollywood um árabil þar sem hann starfar sem rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður. Um daginn keypti hann sér piparkvörn á útsölumarkaði en hefði átt að láta það vera.

MEÐ KVÖRNINA: Sigurgeir Orri með piparkvörnina sem hann keypti á útsölumarkaði hjá Ross.

sigurgeir orri

FRÆGUR KOKKUR: Wolfgang Puck leggur nafn sitt við lélega, rafdrifna piparkvörn.

„Trouble“ „Þetta byrjaði allt þegar ég keypti glæsilega rafdrifna Wolfgang Puck-piparkvörn á útsölu í Ross en eins og flestir vita er Wolfgang Puck frægur kokkur og ég hélt satt að segja að hann legði nafn sitt aðeins við gæðavörur,“ segir Sigurgeir Orri, en það var öðru nær.

„Fyrir það fyrsta voru sætin sem rafhlöðurnar áttu að sitja í of stór þannig að ég þurfti að troða samanbrotnum álpappírsmiðum á milli skautanna til að tengja þau. Gott og vel, straumurinn komst á, en þá kom í ljós að kvörnin var svo máttlaus að hún virtist alltaf vera að gefa sig þegar ég þrýsti á ryðfrían stáltakkann. Ég hefði betur hent kvörninni strax því í hverju matarboðinu á fætur öðru urðu gestirnir að sætta sig við miklu minni pipar á matinn en venjulega. Það var mjög vandræðalegt að geta ekki boðið fólki upp á almennilega piparkvörn í kvöldverði sem hafði tekið jafnvel hálftíma að undirbúa. Hingað og ekki lengra! sagði ég og henti Wolgang Puck-kvörninni og keypti nýja handdrifna pipar- og saltkvörn.“

Þú meinar tvíhleypu?

„Nákvæmlega,“ svarar Sigurgeir Orri. „Þetta var sannkölluð tvíhleypa; saltið og piparinn hvort í sínum endanum með loki á. Kvörnin virkaði ágætlega í nokkra mánuði en þá fór að halla á ógæfuhliðina. Lokin tvö hættu að sitja kyrr í sætum sínum og duttu af í hvert skipti sem kvörninni var snúið. Það var ekki lítil niðurlæging að þurfa stanslaust að tína lokin upp úr gólfinu eða af matardiskum gestanna þegar einhver gerði tilraun til að salta eða pipra matinn sinn.“

Fleiri viðtöl við Sigurgeir Orra munu birtast í Séð og Heyrt á næstunni.

Related Posts