Ég er ungur kvenmaður sem nærir sig vel og hef því augljóslega blæðingar. Inni í myrkum skáp inni á baðherbergi leynist hilla sem kærastinn minn forðast sem heitan eldinn. Þetta er píkuhillan mín.

Hillan er falleg glerhilla í vel lokuðum skáp og stútfull af ýmsum vörum.

Þarna má finna dömubindi – moderate, super flow og næturbindi; túrtappa-regular og extra, blautklúta fyrir skvísuna og að lokum sérstaka sápu fyrir þessa elsku. Allt þetta kallar á pláss og hillan svignar undan álaginu.

Ég hef aldrei verið feimin að tala um blæðingar og hafa fjórir bræður mínir fengið að heyra eflaust meira af þessum reglulegu heimsóknum en flestir drengir á þeirra aldri.

Skemmtilegast þykir mér þó að ræða um þessa hluti við bróður minn sem er á fyrsta ári í menntaskóla. Fyrir nokkrum árum álpaðist ég til að segja orðið „túr“ fyrir framan hann, hann horfði á mig, gretti sig og sagði oj. Ég snöggreiddist yfir þessum barnalegu viðbrögðum og hélt langa og tilfinningaríka ræðu yfir honum sem eftir á að hyggja var eflaust aðeins of hvöss og slæmur einræðisherra hefði orðið stoltur af. Eftir að hafa lokið mér af horfði þessi yndislegi bróður minn á mig með skilningsríkum augum, þurrkaði allt frussið af andlitinu sínu og sagði síðan; okei, Anna Gréta, ég skil þig, það er ekki ógeðslegt að fara á túr. Ég gekk sátt í burtu og áleit mig hafa hjálpað kynsystrum mínum og framtíðarkærustum bróður míns.

Mannveran getur skammast sín fyrir ýmislegt en konur á blæðingum er ekki eitt af því. Það á ekki að vera feimnismál að vera á blæðingum. Blæðingar eru þáttur í heilbrigðri líkamsstarfsemi kvenna og gefur til kynna að allt sé í lagi. Þar sem blæðingar endurtaka sig oft og títt helst slímhimnan í leginu fersk og frjósöm. Ég vill halda sem lengst í frjósemi mína og ætla því að taka blæðingum mínum fagnandi í hverjum mánuði.

Svo skemmir ekki fyrir að hillan er einungis lífræn því, jú, konan á aðeins skilið það besta.

 

Anna Gréta Oddsdóttir

Related Posts