PARÍS Í HÁSKÓLABÍÓI

Fjölmennt á frumsýningu:

 

Íslenskt, já takk Það var margt um manninn á frumsýningunni á nýjustu mynd Hafsteins Gunnars Sigurðssonar, París norðursins. Myndin hafði fengið mikið lof á kvikmyndahátíðum erlendis og þar á meðal hvatningarorð frá virtum miðlum á borð við Variety, Hollywood Reporter og Screen Daily. Eitthvað náði það að spyrjast út sökum þess að ekki komust allir sem vildu í sæti sín, þrátt fyrir hátt í þúsund manna sal. Sannkallaður „VIP-viðburður“.

Stólar voru dregnir inn í sal úr anddyrinu til að tryggja það að bestu sæti hússins væru ekki öll frátekin. En af áhuganum að dæma dugði ekki fyrir hvern og einn að mæta einungis með miða, heldur sigldi þetta í þá grundvallarreglu að þeir sem ekki mættu stundvíslega myndu ekki verða svo heppnir að fá að berja myndina hans Hafsteins augum á hátíðaropnuninni. Til gamans má geta að leikstjórinn tyllti sér sjálfur á gólfið.

Ýmsir fjölmiðlamenn komu fýluferð, hlutu þó í staðinn opna miða sem giltu á almennri frumsýningarhelgi. Fagnaðarlætin og klöppin gáfu strax til kynna að þarna væru fleiri hundruð manns mætt til að styðja íslenska kvikmyndagerð fyrst og fremst. Stuðningur sá lét m.a.s. rækilega heyra í sér þegar tæknileg mistök leiddu til þess að myndin stöðvaðist í stutta stund í miðri sýningu – og voru þá áhorfendur á svipstundu skildir eftir í huggulegu myrkri. Eðlilegt þykir að leikstjórar og aðstandendur bíómynda sæki slíka viðburði með spennuhnút í maganum og þrátt fyrir að dimman hafi skollið á sökum bilunar vantaði ekki sterku viðtökurnar út sýningartímann, enn síður þegar tjöldin í stóra sal Háskólabíós lokuðust og aðstandendur stóðu á sviðinu til að hneigja sig.

Related Posts