Vivien Leigh, sem hét réttu nafni Vivian Mary Hartley, fæddist þann 5. nóvember, 1913, á Indlandi á tíma breska heimsveldisins. Hún var eina barn foreldra sinna, þeirra Ernest og Gertrude. Faðir hennar var herforingi í indverska riddaraliðinu en móðir hennar, líkt og siður var á þessum tíma, var heimavinnandi og var mjög trúuð.

Vivian2

Vivien og Laurence.

Gertrude reyndi að kenndi dóttur sinni að meta ritlist og kynnti verk H.C Andersen, Lewis Carroll og Rudyard Kipling sem og gríska og indverska goðafræði fyrir henni. Vivien var aðeins þriggja ára gömul þegar hún steig fyrst á svið með áhugamannaleikhópi sem móðir hennar var í. En þegar hún var sex ára gömul fór Gertrude með Vivien til Englands þar sem hún var sett í klausturskóla. Hún var þó ekki lengi þar því Ernest kom og tók hana úr honum til að ferðast um Evrópu. Skólaganga hennar hélt þó áfram í hinum ýmsu skólum um meginland álfunnar og komu þau ekki aftur til Englands fyrr en 1931.

Þegar hún sagði foreldrum sínum frá draumum sínum um að verða leikkona þá skráði pabbi hennar hana í Royal Academy of Dramatic Art, eða RADA, eins og skólinn er oft kallaður.
Vivien kom auga á Herbert Leigh Holman sama ár og þau sneru til Englands. Hann var trúlofaður þegar hún hitti hann en hún sagði vinkonu sinni að hún ætlaði að giftast honum og það kæmi henni ekkert við þótt hann væri lofaður annarri konu. Herbert var ekki hrifinn af „leikhúspakki“ eins og hann kallaði leikara en þau giftust nú samt í desember 1932 og hún hætti þá í RADA. Ári síðar eignuðust þau dótturina Suzanne, sem varð eina barn Vivien.

Byrjun ferilsins

Það voru vinir Vivien sem fengu hana til að taka litlu hlutverki í kvikmyndinni Things Are Looking Up. Hún vildi verða besta leikkona sem heimurinn hafði séð og vann hún hart að því. Hún réð umboðsmanninn John Gliddon til starfa og hann sagði henni að nafn hennar, Vivian Holman, væri ekki nógu grípandi og ekki gott fyrir leikkonu. Hann stakk upp á nafninu April Morn sem hún neitaði að nota og ákvað í staðinn að nota Vivien Leigh. Hún breytti Vivian í Vivien og tók upp millinafn eiginmanns síns sem seinna nafn.

Vivian3

Vivien og Marlon Brando í A Streetcar Named Desire.

Gliddon reyndi að fá kvikmyndaleikstjórann Alexander Korda til að ráða hana til starfa en Korda fannst hún ekki hafa mikla hæfileika og litla framtíð í leiklist. Hún fékk hins vegar hlutverk í leikritinu The Mask of Virtue þar sem hún fékk afargóða dóma og mikla athygli fyrir. Í einu viðtali við Daily Express stóð að skap hennar breyttist á örskotsstundu. Það var í fyrsta skipti sem talað var um skapgerðabreytingar hennar. Alexander Korda fór á frumsýningu leikritsins og viðurkenndi mistök sín að hafna henni og gerði við hana kvikmyndasamning. Leikritið gekk svo vel að það var fært yfir í stærra leikhús en þá kom í ljós að Vivien hafði ekki nógu sterka rödd fyrir svo stórt svið að sýningum var hætt stuttu síðar.

Þrátt fyrir stóra drauma og frægð og frama var Viven ekki allskostar sátt við svo góða dóma snemma á ferlinum og sagði hún í viðtali árið 1960 að hún hefði aldrei fyrirgefið gagnrýnandanum fyrir að lofa hana svo rosalega mikið. „Sumir sögðu að ég væri frábær leikkona. Ég hugsaði að það væri heimskulegt og jafnvel illkvittið að segja það, ábyrgðin sem þessum orðum fylgdi íþyngdi mér gífurlega og ég gat ekki borið hana. Það tók mig margra ára vinnu að geta staðið undir þessum væntingum. Ég man vel eftir gagnrýnandanum og ég hef aldrei fyrirgefið honum.“

Laurence Olivier

Vivian5

Vivien með Laurence í hlutverkum sínum sem Kleópatra og Júlíus Sesar.

Laurence sá Vivien í The Mask of Virtue og byrjaði með þeim vinskapur eftir að hann hrósaði henni fyrir frammistöðuna. Árið 1937 byrjuðu þau í ástarsambandi þegar þau léku elskhuga í Fire Over England en þau voru bæði gift. Á þessum tíma las hún líka Gone With the Wind og sagði bandaríska umboðsmanni sínum að nefna hana við David O. Selznick sem var að vinna að undirbúningi myndarinnar. Hún sagði í viðtölum að hún hefði ákveðið að hún væri Scarlett O’Hara. „Laurence Olivier vill ekki leika Rhett Butler en ég mun leika Scarlett, sjáið bara til.“

Laurence og Vivien léku Hamlet og Opheliu í Old Vic-leikhúsinu og eitt kvöldið, rétt fyrir sýningu, breyttist skap hennar skyndilega. Hún byrjaði að öskra á hann en svo allt í einu varð hún þögul sem gröfin. Daginn eftir mundi hún ekkert eftir þessu en þetta var í fyrsta skiptið sem Laurence varð vitni að slíkri hegðun hjá henni. Þau fóru að búa saman á svipuðum tíma en löglegir makar þeirra beggja neituðu að veita þeim skilnað. Vegna siðferðisstaðla kvikmyndageirans þótti samband þeirra ósiðsamlegt og urðu þau að halda því leyndu fyrir almenningi.

Gone With the Wind

Leikhúsumboðsmaður Vivien vann fyrir umboðsskrifstofu sem Myron, bróðir David O. Selznick átti. Hún fór þangað og bað um að fá að leika Scarlett en henni var sagt að þrátt fyrir að vera frábær leikkona væri hún allt of bresk til að geta nokkurn tíma leikið suðurríkjadömuna Scarlett O’Hara.
Hún ákvað að fara til Los Angeles, þar sem Laurence var við vinnu, og koma við hjá Myron sem var líka umboðsmaður Laurence. Honum fannst hún búa yfir eiginleikum sem ættu vel við Scarlett og fór með hana til bróður síns. Sagnir segja að Myron hafi farið með Vivien og Laurence á settið þar sem David var að kvikmynda bruna í borginni Atlanta. Myron kynnti Vivien fyrir bróður sínum með því að segja: „Hey, snillingur, hér er Scarlett O’Hara.“ Daginn eftir fór hún í prufu og David skrifaði konunni sinni að valið væri komið niður í Paulette Goddard, Jean Arthur, Joan Bennett og Vivien Leigh. Leikstjóranum George Cukor fannst hin villta hlið Vivien æðisleg og það var ekki löngu síðar sem hún fékk hlutverkið.

Tökur voru ekki góðar, Cukor var rekinn og Victor Fleming ráðinn í staðinn. Vivien og hann rifust stanslaust. Hún þurfti oft að vinna sjö daga vikunnar og langt fram á kvöld sem jók álagið á líkama hennar. Henni líkaði ekki kvikmyndaleikur og eftir að myndin kom út, sem varð gífurlega vinsæl, sagði hún: „Ég er ekki kvikmyndastjarna, ég er leikkona. Líf kvikmyndastjörnu er innantómt líf þar sem lifað er fyrir athygli og marklaus gildi.“ Myndin vann til tíu Óskarsverðlauna og hún var kosin besta leikkonan.

Geðhvarfasýki

Vivian4

Jack og Vivien.

Árið 1951 léku Vivien og Laurence saman í tveimur leikritum um Kleópötru en Vivien fékk ekki góða dóma. Fólki fannst hún ekki vera með nógu sterka rödd og vanhæfni hennar gera það að verkum að Laurence væri ekki eins góður og hann gæti verið. En Vivien tók ekki eftir vondu dómunum því hún ætlaði sér að verða besta leikkona í heimi.
Tveimur árum seinna lék Vivien í myndinni Elephant Walk með Peter Finch. Hún hins vegar fékk taugaáfall og Elizabeth Taylor tók við af henni. Laurence fór með hana heim til þeirra þar sem hún sagði honum að hún væri ástfangin af Peter og ætti í ástarsambandi við hann. Það tók hana nokkra mánuði að jafna sig á áfallinu. Þau höfðu átt í ástarsambandi í nokkur ár en það fjaraði út eftir því sem hún varð veikari.

Hjónaband hennar og Laurence fjaraði út á næstu árum. Árið 1958 byrjaði hún í ástarsambandi við leikarann Jack Merivale sem lofaði Laurence að sjá um hana, sem hann gerði allt til dauðadags hennar. Laurence og Vivien skildu formlega árið 1960.

Síðustu árin

Jack hafði góð áhrif á Vivien. Næstu árin fóru í vinnu bæði í leikhúsum og kvikmyndum. Hún fór um heiminn að leika á sviði en árið 1967, þegar hún var að æfa fyrir hlutverk í leikritinu A Delicate Balance, tóku berklar, sem hún hafði fengið einhverju áður, sig upp aftur hjá henni. Eftir nokkrar vikur af hvíld virtist hún vera nógu heilsuhraust til að vinna. Þann 7. júlí, 1967, kvaddi Jack hana til að fara að vinna. Um kvöldið þegar hann kom heim var hún sofandi í rúminu en þrjátíu mínútum síðar fann hann hana á gólfinu. Hún hafði ætlað að fara á klósettið en lungu hennar fylltust af vökva og hún féll niður. Jack hringdi í Laurence sem kom til þeirra og baðst fyrirgefningar á öllu því illa sem þeirra fór á milli og hjálpaði Jack svo að undirbúa jarðarför hennar. Hún var 53 ára þegar hún lést.

Related Posts