ORÐINN BÓNDI Í BÁRÐARDAL

Sigurður Sigurjónsson, aðalleikari kvikmyndarinnar Afinn, vakti athygli viðstaddra á frumsýningu myndarinnar þegar hann gekk í hús með vígalegt alskegg. Skeggið hefur þó ekkert að gera hvorki með afann né Sigga sjálfan, heldur tilheyrir það bónda í Bárðardal sem hann leikur um þessar mundir.

Sigurður Sigurjónsson leikur Afann í samnefndri kvikmynd og fer á slíkum kostum að líklega er um eftirminnilegasta leikafrek hans að ræða frá því Ragnar Reykás var og hét. Leikarinn ástsæli var þó
illþekkjanlegur þegar hann mætti á frumsýningu myndarinnar þar sem hann skartar nú síðu hári og voldugu alskeggi. „Þetta skegg hefur alls ekkert að gera með Sigga Sigurjóns heldur tilheyrir það bónda í Bárðardal sem ég leik í bíómynd sem verið er að gera,“ segir Siggi sem hafði ástæðu til að fagna eftir frumsýninguna og góðar viðtökur þar. „Við fengjum mjög ljúf viðbrögð sem er kannski
viðeigandi þar sem þetta er ljúfsár gamanmynd.“
Bjarni Haukur Þórsson leikstýrir myndinni og skrifar handritið upp úr eigin leikriti, ásamt Ólafi Agli Egilssyni. Afinn segir frá Guðjóni sem missir fótanna í tilverunni þegar eftirlaunaaldurinn blasir við honum. Vandræði koma upp í hjónabandinu og í örvæntingarfullri leit að lífsfyllingu leggur hann út í ýmis ævintýri.

Related Posts