Í dag þykir maður ekki vera kona með konum nema eiga snjallsíma og auðvitað að vera með helstu öppin á hreinu. Ég er ein af þeim sem er núll tæknivædd þegar kemur að flestu þessu stöffi þó að ég hafi alveg heilasellu til að ná í þetta í símann.

Byrjum á Snapchat, jú ég er þar. Set inn kannski eitt snap í my story á viku, sem er yfirleitt á hlið samkvæmt vinkonu minni eða úr fókus eða eitthvað annað. Hins vegar ef þú ert skemmtileg/ur þá hef ég rosalega gaman af að fylgjast með þér svona þegar ég man eftir að opna snappið. Hvað er samt málið með alla þessa filtera þarna? Seríöslí fólk, hrekkjavaka er einu sinni á ári og ekkert mál að vera býfluga þá. Plís hættið þessu, þið eruð æði án filtera.

Ég er líka á Instagram, einmitt. Ég veit að það bíða allir spenntir á læktakkanum, eftir að ég smelli inn fyrstu myndinni minni þar. Forstjóri Endomondo bíður líka spenntur eftir að ég hreyfi mig (meira) en hann verður fyrst að svara póstinum mínum þar sem ég bið hann að tengja úrið mitt við Endomondo, þangað til það gerist ætla ég bara að snúa mér í sófanum áfram.

Þau öpp sem ég nota hins vegar eru þrjú. Tónlistarveitan Spotify er svakalega mikið notuð, enda gefur tónlistin lífinu lit og hverri tilfinningu lag. Bookshots er ótrúlega sniðugt, ég sótti mér ókeypis bók eftir James Patterson og get núna alltaf litið í bók hvar sem ég á lausa stund.

Þriðja appið sem ég nota er svo að sjálfsögðu Tinder, enda bara asnalegt að vera einhleyp og ekki þar. Það er ekkert leyndarmál að kona vill kynnast manni (nánari kröfulista má nálgast í gegnum einkaskilaboð á Facebook eða með bögglapósti, þungum) Og á Tinder þar gerast sko undur og stórmerki, eða ekki! Þar inni hef ég lækað vini mína, bæði sem ég þekki í raunveruleikanum og þá sem eru bara svona kunningjar á Facebook, stundum hef ég fengið læk á móti og stundum ekki. Stundum þegar ég hef fengið læk á móti, þá er búið að unmatcha mig daginn eftir og svo verður dúddinn súber kjánalegur næst þegar við hittumst. Í öðrum tilvikum dett ég í spjall við vininn á Tinder (sem hefur aldrei sent mér svo mikið sem hæ á Facebok) og svo gerist ekkert, nema ég poppa bara og horfi á nýjustu þáttaröðina sem var að detta inn á Netflix.

Það eru hins vegar alveg nokkur öpp sem myndu klárlega glæða líf mitt gleði, kannski eru þau til, ég hef bara ekki nennt að athuga það. „Húsið þrífur sig sjálft,“ „bíllinn glansbónaður“, „þú þarft aldrei að spyrja hvað á að vera í matinn“ öppin eru klárlega dæmi um öpp sem kona á miðjum aldri væri til í að sækja núna strax. Þannig að ef þú veist hvort þau eru til máttu senda mér línu, takk fyrir.

2016, Aldís Pálsdóttir, Ásta Garðarsdóttir, séð & heyrt, Starfsmannamynd, SH1606012200, Ragna

Ragna Gestsdóttir

Related Posts