Skúli Guðbjarnarson (59) missti fyrirtæki í bruna og næstum aðra höndina:

Líf fólks getur tekið ævintýralega snúninga. Það má með sanni segja að slíkt eigi við um Skúla Guðbjarnarson, líffræðing og kennara. Hann hefur upplifað að missa allt sitt en standa upp aftur. Skúli og eiginkona hans, Sigrún Jóhannsdóttir, opnuðu nýverið kaffihús á Álftanesi hið fyrsta í bænum.
Ótrúlegt ,,Það er röð tilviljanna sem kom mér hingað. Við hjónin búum á Álftanesi, fórum úr blokk í Reykjavík og hingað. Ég samþykkti það gegn því að ég fengi gróðurhús. Og nú erum við að opna kaffihús en það hefði mér aldrei dottið það í hug,” segir Skúli Guðbjarnarson kankvís.

46. tbl. 2015, Kaffihús á Álftanesi, ný opnað, SH1511235515

SAMHENT HJÓN: Skúli og eiginkona hans, Sigrún, hafa unnið nótt og dag til að gera allt klárt. ,,Við fengum öll húsgöng á bland.is, virkilega vel með farin. Við viljum hafa heimilislegt hjá okkur.”

Skúli og kona hans hafa gengið í gegnum sitthvað í lífinu, hann missti fiskeldistöð sem að hann átti í bruna á sama tíma og að hann var að jafna sig eftir bílslys og mjög alvarlegt slys á vinstri hendi.

,,Það er stundum svona; eitt rekur annað. Höndin fór ekki í sundur en ég var um ár að jafna mig og var í raun algjörlega óvinnufær. Ég lenti í garðyrkjuslysi og þannig skaddaðist ég hendinni. Í raun og veru átti ég aldrei að geta notað hana aftur en ég þrjóskaðist í gegnum þetta. Hins vegar fóru skuldirnar ekkert og ég stóð í erfiðum málum eftir að hafa misst lífsviðurværi mitt í bruna og þá voru góð ráð dýr. Ég sótti um vinnu í Noregi og starfaði þar í nokkur ár við fiskeldi en ég er menntaður á því sviði. En svo leiddi eitt af öðru og nú rek ég kaffihús í heimabænum.”
Hjónin eru á þönum enda í mörgu að snúast þegar opna á kaffihús. Þau leggja áherslu á að vera með ferskt hráefni. Allt brauð og kökur er bakað á staðnum og boðið verður upp á súrdeigspítsur með fersku heimagerðu pestói.

,,Upphaflega var ég að hugsa um að vera með fiskeldiskör hér við húsið og vera líka með kaffihús. Hér var áður Bessinn, bar og pítsustaður, sem margir kannast við. Við ætluðum að opna í sumar en svona tekur tíma. Nú höfum við opnað og erum bjartsýn á að þetta muni ganga vel. Það er einstök náttúrufegurð á Álftanesi og tilvalið fyrir fjölskyldufólk að renna hérna við, skreppa í sund og koma til okkar í kaffi og kökur,” segir Skúli á þönum enda í mörgu að snúast.

46. tbl. 2015, Kaffihús á Álftanesi, ný opnað, SH1511235515

SPENNTIR GESTIR: Félagar úr gönguhópi félags eldri borgara á Álftanesi hafa beðið spenntir eftir opnuninni og finnst kaffihúsið kærkomin nýjung í bænum.

 

Related Posts