Til okkar barst undarlegur tölvupóstur sem er frá engum öðrum en jólakettinum sjálfum – og ekki í fyrsta sinn. Hann bað góðfúslega um að birta þetta opna bréf til að koma ýmsum staðreyndum á framfæri í eitt skipti fyrir öll:

Ágæta fólk

Þessar óvinsældir mínar eru orðnar óskaplega þreytandi, enda getið þið aðeins ímyndað ykkur hvaða áhrif það hefur haft á sálina að alast upp á hávaðsömu og smekkfullu heimili þar sem þrettán skítugir bræður þrömmuðu um öll gólf og þrösuðu við foreldra sína við og við. Engir draumaforeldrar heldur. Ykkur skjátlast ef þið haldið síðan að matarskammtar hafi farið jafnt á milli allra en hver haldið þið að hafi alltaf fengið seinast? Nú, auðvitað hann Fnykur. Alveg rétt, það er nafnið sem mér var gefið þótt fólkið á heimilinu hafi lítið getað sagt hvað óþef varðar.

Afsakið innilega skap mitt og hungur en ég get bara því miður ekkert að því gert upp að þessum punkti og framvegis. Eins og Kanarnir segja: „The cat is out of the bag.“

Ég vil engum illt, ég er bara með blæti fyrir því að vera leiðinlegur á jólunum því ég upplifði sjálfur ekkert annað. Og annað hitt en ýmsar sögur hafa gefið til kynna að ég éti börn en ég ét engin börn. Hversu stór haldið þið að ég sé?? Ég þyrfti að vera á stærð við fólksbíl til að geta gleypt börn í einum bita. Það gera sér heldur ekki allir grein fyrir þessu en þegar ég kem í heimsókn þá þarf ég oftast að berjast við foreldra og ættingja áður en mér tekst að ná markmiði mínu. Fullorðna fólkið er yfirleitt ekki hrifið af því að subbulegur, tættur köttur komi og geri börnunum þeirra lífið leitt á jólunum, nema kannski nokkrir í Hjöllunum í Kópavogi.

Meira að segja prófaði ég eitt sinn mannakjöt veturinn 1987 og fannst það mjög seigt og óætt ef ég á að vera hreinskilinn. Það eina sem ég geri ef þú færð ekki eitthvað nýtt er að ráðast á jólamatinn þinn og oftast þá bara rjúpurnar. Koma mín gæti samt tekið smátíma, enda er ég ekki á vélsleða heldur tek ég bara spretti á milli bæjarfélaga. Ég skal þó reyna að vera aðeins mildari í ár. Ég komst í aðeins betra skap þetta árið þegar ég datt inn í New Girl.

Hafið það ágætt.

Kveðja, J.K.

Related Posts