Yngsti sonur minn hefur miklar áhyggjur af því að þegar mamma hans verður amma muni hún hrjóta svo mikið. „Allar ömmur hrjóta,“ sagði hann, og eðlilega velti ég því fyrir mér hvernig hann hefði komist að þeirri niðurstöðu. „Amma S hrýtur alltaf fyrir framan sjónvarpið og amma B hraut alla ferðina, ég gat bara næstum ekkert sofið af því að hún hraut svo hátt,“ sagði sonur minn sem greinilega hafði velt þessu töluvert fyrir sér. Hann komst að þeirri vísindalegu niðurstöðu að konur tækju upp á þeim óskunda að hrjóta reiðinnar býsn um leið og þær hlytu ömmutitilinn.

Full vorkunnar í garð barnsins, að eiga hrjótandi ömmur, ákvað ég að taka stöðuna á elsta syninum sem er á barneignaraldri, hann fullvissaði mig um það að ég myndi ekki ganga í lið með hrjótandi ömmum á næstunni, mér til mikil léttis.

Það létti hins vegar ekki áhyggjunum af þeim yngsta sem veltir mikið fyrir sér aldri móður sinnar. Á góðviðrisdegi þar sem við sátum í heitum potti að hvíla lúna vöðva, gall í þeim minnsta: „Mamma, þú ert með hvítt hár, þú verður að láta mála það.“ Ég reyndi eftir bestu getu að malda í móinn og sannfæra drenginn um að fjöldi hvítra hára á höfði mínu ættu ekkert skylt við aldur, heldur væri hér um arfgengt einkenni að ræða, ég hefði skartað hvítum hárum á höfðu frá átján ára aldri og fátt við þessu að gera.

Ég bókaði tíma í hármálun strax næsta dag, og skarta í dag ljósu hári sem yngir mig um nokkra mánuði, syni mínu til mikils léttis.

Ég fékk fyrirspurn vinnu minnar vegna hvort ég væri með snapchat, ég hafði einhvern tíma verið með svoleiðis og átti fjóra vini, það fannst mér alveg meira en nóg, en þar sem ég verð að fylgjast með þá er það víst bráðnauðsynlegt að vera með snapchat.

Ég er svo ljónheppin að miðsonurinn er sérstaklega tæknifær og því kallaði ég hann mér til aðstoðar. „Mamma, í alvörunni, þú verður að fara að læra þetta sjálf.“ Ég bar mig aumlega og lofaði að bæta tæknigetu mína í framtíðinni. En gladdist þó yfir því að hann beitti uppeldisaðferð minni: að börn, og í þessu tilviki mömmur, verði sjálfstæð og geti hjálpað sér sjálf.

Nú er ég sem sagt komin með snapchat og skarta svakalega mikið lituðu ljósu hári og finn ekki lengur fyrir öldrunareinkennum eða tilhneigingu til þess að hrjóta. Sem betur fer.

 

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Related Posts