Óhefðbundnar lækningaaðferðir eru margvíslegar og vestræn læknavísindi viðurkenndu engar þeirra til skamms tíma. Hluti þessara aðferða hefur þó unnið á og eftir því sem rannsóknum á virkni þeirra fjölgar náð að skipa sér sess með hefðbundnum meðferðum. Lítum á nokkur dæmi:

 

Grasalækningar

herbs_safety_img

Grasalækningar eru viðurkennd háskólagrein víða

Virkni lækningajurta er velþekkt og margar þeirra eru notaðar enn í dag við framleiðslu lyfja hjá lyfjafyrirtækjum. Grasalækningar eru viðurkennd háskólagrein víða og margir læknar hvetja orðið sjúklinga sína til að leita til slíkra lækna og notfæra sér þau seyði og tinktúrur sem þeir bjóða. Nokkrir skólar eru innan grasalækninga en flestir nýta jurtir úr umhverfi sínu en löng hefð er fyrir lækningum af þessu tagi í Kína og á Indlandi og margir vestrænir grasalæknar líta gjarnan þangað og flytja inn jurtir frá þessum löndum. Grös hafa gefist vel bæði við útvortis og innvortis meinum en viðtal og meðferð hjá grasalækni er ekki niðurgreidd af Tryggingastofnun.

 

Heilsa og næring

Mikilvægi réttrar næringar hefur lengi verið þekkt en næringarfræði og -ráðgjöf eru hluti af meðferð margra sjúkdóma. Krabbameinssjúklingar fá ráðgjöf varðandi mat sem hjálpar meðan á meðferð stendur en rannsóknir hafa sýnt að neysla ávaxta og grænmetis á meðan lyfin vinna getur aukið virkni þeirra. Hjartasjúklingar geta bætt líf sitt mjög með ákveðnu vali á næringu og hið sama gildir um ótalmarga aðra. Ákveðnar matartegundir hafa meira að segja reynst geta slegið á ógleði á meðgöngu og hjálpað konum sem ekki halda neinu niðri. Meðal þess sem sagt geti reynst vel við ógleði eru sítrusávextir, saltkex, hnetusmjör, bananar og bakaðar kartöflur. Í ávöxtum er kalíum og það virðist ná að slá á ógleðitilfinninguna.

 

tcm_music_therapy_eases_earringingec1eb7d514df58496246

Tónlist örvar ákveðin svæði í heilanum

Tónlistarþerapía

Margar rannsóknir styðja núorðið að tónlist örvar ákveðin svæði í heilanum og hægt er að ýta undir athafnasemi, árásargirni, blíðutilfinningar og kalla fram djúpa slökun með réttri tónlist. Víða í heilbrigðiskerfum vestrænna ríkja er tónlist notuð sem hjálpartæki. Mjög veikir sjúklingar sem þjást af kvölum geta frekar náð að slaka á ef spiluð er róleg tónlist og svokölluð hugleiðslutónlist. Það hefur sýnt sig að sjúklingar sem njóta tónlistar og hjálpar við að slaka á þurfa minna af verkjalyfjum en hinir. Víða starfa tónlistarþerapistar í nánu samstarfi við lækna og hjúkrunarfólk og einnig með þroska- og sjúkraþjálfurum til að ná hámarksárangri við endurhæfingu. Heyrnin er það skilningarvitanna sem virðist síðast dofna og áhugaverð rannsókn sýndi fram á að fólk í djúpu meðvitundarleysi og heilabilaðir sýndu oft viðbrögð við tónlist en ekki merkjanleg svör við öðru áreiti.

 

heilsumolar, pokahorn

Nudd er viðurkennd meðferð við bólgum

Snerting

Allir menn þurfa snertingu og njóta þess að snerta aðra. Nudd er nú á dögum viðurkennd meðferð við bólgum, verkjum í stoðkerfi, gigt og fleiri sjúkdómum. Það mýkir vöðva og snerting handanna eykur framleiðslu vellíðunarboðefna sem ávallt hafa líknandi áhrif í líkamanum. Undanfarið hefur einnig færst í vöxt að nudd sé notað við meðferð sjúklinga sem þjást af ýmsum andlegum kvillum.

 

Dáleiðslutækni

Að undanförnu hefur dáleiðslutækni eða djúpslökunarmeðferð verið að ryðja sér til rúms innan hefðbundinna lækninga. Margir sálfræðingar og geðlæknar nota hana við störf sín og eins hafa þeir kennt sjúklingum sínum hugleiðslu í því skyni að hjálpa þeim að slaka á og ná jafnvægi. Rannsóknir á hugleiðslu benda allar til að sé hún stunduð reglulega hafi hún heilsubætandi áhrif. Dáleiðsla hefur verið umdeildari en margir hafa náð góðum árangri með þeirri aðferð. Hún hefur helst verið notuð til að slá á kvíða, þunglyndi og til að hjálpa fólki að vinna sig út úr fíkn

 

Texti: Steingerður Steinarsdóttir

Related Posts