Sverrir Björn Þráinsson (32) grenningarráðgjafi:

Sverrir Björn grenningarráðgjafi er búsettur í Svíþjóð en árið 2003 kom hann í viðtal í Séð og Heyrt þar sem hann talaði um kántríið í blóðinu og draumana í Nashville.

Huggun í mat „Nei, ég er ekki lengur svona mikið í kántríinu, ég hef eitthvað verið að vinna við lagasmíðar en ekkert meira en það,“ segir Sverrir Björn um það hvort kántríið eigi enn þá jafnstóran stað í hjarta hans.
„Ég fékk þessa kántríbólu í vöggugjöf. Ég er mikill áhugamaður um kántrítónlist og veit allt um hana en því lýkur eiginlega þar. Í dag sé ég um síðu á Facebook tileinkaða Pedal Steel Guitar, sem er oft notaður í kántrí, og er hún orðin að stóru samfélagi um þetta hljóðfæri.“

Sverrir Þráinsson

AÐSTOÐAR FÓLK: Í dag aðstoðar Sverrir fólk við það að grennast með hjálp tilfinningar- og matardagbókar.

Draumurinn breyttist
Draumurinn um að verða kántrítónlistarmaður vék fyrir öðrum draumi sem Sverrir starfar við í dag. „Ég hafði náð góðum árangri í að grenna mig með ákveðnum leiðum. Þegar ég bjó í Svíþjóð árið 2012 kom upp sú staða að okkur vantaði pening. Ég ákvað að nota reynslu mína í að létta mig og bjóða öðrum upp á ráðleggingar. Síðan vatt þetta upp á sig, sá fyrsti sem ég hjálpaði var ánægður og sagði vinkonu sinni frá þessu og þetta rúllaði svona áfram þar til þetta varð að vinnu. Ég flutti síðan aftur til Íslands og starfaði í Sporthúsinu árið 2013.“
Þegar Sverrir flutti síðan aftur til Svíþjóðar í júní á síðasta ári þá hélt ævintýrið áfram. „Það kom algjör sprengja og alda af fyrirspurnum. Í dag er ég í fullri vinnu við að hjálpa fólki, í gegnum Netið.“

Notar öðruvísi aðferðir
Sverrir notast við aðferðir sem hjálpuðu honum á sínum tíma og þær virðast falla vel í kramið hjá þeim sem vilja léttast. „Ég notast mikið við tilfinningaaðstoð. Ástæðan fyrir því að við fitnum er tilfinningaleg. Við sem erum að berjast við aukakílóin eigum það sameiginlegt að eitthvað slæmt hefur komið fyrir tilfinningalega. Við erfum að sjálfsögðu einhverjar hneigðir og ef við berjumst ekki á móti þeim þá er auðvelt að láta undan. Fólk sem er í ráðgjöf hjá mér er með tilfinningadagbók og matardagbók sem ég fer yfir. Einnig notast ég mikið við skrefamæli. Þetta er allt um matarræði, hreyfingu og hvernig þér líður.“
Sjálfur var Sverrir of feitur allt frá átta ára aldri. „Ég gekk í gegnum andlega erfiðleika, einelti og fleira, sem varð til þess að ég leitaði í mat, enda er það eina dópið sem barn getur leitað í. Sumarið áður en ég fór í menntaskóla missti ég 60 kíló. Síðan kynntist ég konunni minn og þegar hún varð ólétt þá var eins og einhver botn hafi látið undan og ég þyngdist meira en hún. Ég var kominn upp í 140 kíló og þegar ég var 24 ára fékk ég hjartaáfall, eftir það tók ég mig á og vissi þá hver mín köllun væri. Ég bjó sjálfur til prógramm sem ég fylgdi og er að nota með fólki í dag. Ég gerði matardagbók og hélt úti tilfinningadagbók sem ég fór sjálfur yfir. Ég tók til í fortíðinni, sem ég tel mikilvægt, og leitaði meðal annars til dáleiðara til að hjálpa mér með það. Árið 2011 byrjaði ég að skrifa fyrir Pressuna sem ég geri enn þá í dag.“

Gott að búa í Svíþjóð
Sverrir býr í bænum Höganäs í Svíþjóð ásamt konu sinni og fjórum börnum. „Fyrir utan að hjálpa fólki í gegnum Netið starfa ég í líkamsræktarstöðinni Gofitness sem er í eigu Íslendings. Mér finnst fínt að koma tvisvar á ári til Íslands en það er alveg nóg. Ég fæ stresssjokk um leið og ég lendi í Keflavík og stressið fer ekki fyrr en ég kem aftur til Svíþjóðar, það er miklu rólegra andrúmslofið hérna og minna ójafnvægi. Það er bara allt „jättebra“ hérna.

Nýtt Séð og Heyrt á leiðinni!

Related Posts