Þegar kona er komin á miðjan aldur áttar hún sig alltaf betur og betur á því hvers virði vináttan og góðir vinir eru. Hversu dýrmætt það er að eiga góða aðila að sem standa með manni í bæði gleði og sorg. Sem betur fer fyrir geðheilsuna eru nú skemmtilegu stundirnar alltaf miklu fleiri en eins og ég hef stundum sagt þá er alltaf gott, minnst einu sinni á ævinni, að lenda í áfalli, hvort sem það er stórt eða lítið, og komast þannig að því hverjir eru vinir manns í raun. Vinsa út þá sem eru bara viðhlæjendur þegar sólin skín og nóg öl er á könnunni. Vandaðu þig með hverjum þú býrð til minningar. Þær munu endast þér alla ævina.

En það er ekki nóg að eiga góða vini, maður verður líka að muna að vera það sjálfur. Reyna að gjalda líku líkt og hlusta þegar vinur leitar eftir eyra, vera með góða öxl þegar hann þarf að gráta, góð ráð þegar leitað er eftir þeim og viljuga hjálparhönd. En það er kannski gott að hafa í huga að þegar minnst heyrist í vininum þá þarf hann jafnvel mest á manni að halda. Vegna þess að það erfiðasta er oft að biðja um aðstoð, jafnvel þó að maður sé að biðja vin sinn og jafnvel þó að maður viti að svarið verði pottþétt jákvætt. Við erum jú alin upp við að vera naglar, töffarar og svo framvegis sem ráðum við allt án aðstoðar.

Ekki hika því við að vera vinur og eignast vini, viðhalda gömlum vinatengslum og kynnast jafnframt nýju fólki. Ekki geyma alltaf til morguns eða fram í næstu viku að kasta kveðju á vini sem þú vilt halda sambandi við, því áður en þú veist af gæti það verið orðið of seint.

 

VINUR (Kristján Hreinsson)
Að lifa í einsemd er auðvitað hægt
en alltaf má vinanna leita.
Hið indæla logn getur öldurnar lægt
með einlægni mörgu má breyta.
Ef eignast þú vin getur auðvitað nægt
að ástúð þig langi að veita.

Hin fegurstu orð eru innan um bull.
Hjá arfa vex fallegur gróður.
Alltaf má finna hjá grjótinu gull,
þar geymdur er dýrmætur sjóður.
Og þegar þín veröld af fíflum er full
þá finnur þú vin sem er góður.

sh-1620-46-96376-683x1024

Ragna Gestsdóttir

 

 

Related Posts