Ég er frekar heppin með foreldra. Þau hafa gert margt fyrir mig í gegnum tíðina en það sem ég hef metið einna mest er að þau hafa haldið góðu vinasambandi sín á milli. Að mínu mati er það frekar stórmannlegt að geta haldið áfram að vera vinir þrátt fyrir sambandsslit, fyrir barnið sitt. Þetta finnst mér vera óeigingjarnt og hefur hjálpað mér mikið í gegnum tíðina.

Vináttan hefur verið afar hentug, nema þegar ég þurfti á peningum að halda, eins og gerðist oft á unglingsárunum. Þá hringdi ég bæði í pabba og mömmu og bað þau um pening og sagði hvorugu þeirra frá peningagjöfum hins. Þau auðvitað töluðu saman og úr varð að ég fékk bara peninga frá öðru hvoru þeirra. Þá öskraði ég upp yfir mig, af hverju í fjandanum þau gætu ekki verið óvinir eins og foreldrar allra hinna skilnaðarbarnanna. Það má þó ekki gleyma að fósturmamma mín á mikið hrós skilið fyrir að leyfa svona fallegri vináttu að eiga sér stað.

Það er ekki nóg með það að þau séu vinir, heldur eru þau líka vinir mínir. Það er afar dýrmætt að vera vinur foreldra sinna og geta hringt í þau þegar eitthvað bjátar á. Það hefur gengið á ýmsu þessi 26 ár sem ég hef verið á jörðinni og oftar en ekki hef ég þurft góð vinaráð til að komast í gegnum vandræðin. Á þessum tíma er ómetanlegt að geta hringt í foreldra sína til að fá ráð því þeirra heilræði einkennast af einskærri góðmennsku og þau vilja ætíð það sem er best fyrir barnið sitt. Þessi vinátta sem er á milli foreldra minna og mín er eflaust að einhverju leyti tilkomin vegna lítils aldursmunar á okkur.

Það hefur þó haft sína kosti og galla því þegar ég var lítil þá voru ekki til miklir peningar á heimilinu. Á mínum fullorðinsárum hef ég þó getað litið til baka og hlegið að þessu. Til dæmis þegar að allir krakkarnir áttu hlaupahjól þá voru ekki til peningar á mínu heimil til að kaupa þennan álitlega grip sem gerði það að verkum að ég þurfti að hlaupa á eftir krökkunum út um allan Fossvogsdal. Einnig átti ég aldrei adidas-skó en ég átti dadidas-skó með fjórum línum. Dadidas-skór og ekkert hlaupahjól er þó frekar lítill fórnarkostnaður fyrir sanna og eilífa vináttu.

Takk, mamma og pabbi, fyrir að vera svöl.

 

Anna Gréta Oddsdóttir

Related Posts