Módernistinn Eileen Gray er sennilega ekki hönnuður sem allir þekkja en hún tók mikinn þátt í módernistastefnu síðustu aldar og virðist hafa náð henni á vald sitt. Svo mjög að hinn þekkti arkitekt Le Corbusier varð einstaklega afbrýðisamur og eignaði sér verk eftir hana.

 

Hönnuðurinn Eileen Gray fæddist 9. ágúst 1878 á Suður-Írlandi. Samband foreldra hennar var nokkuð sérstakt fyrir þennan tíma en faðir hennar, James McLaren Smith, var málari og hvatti börnin sín til lista en móðir hennar, Eveleen Pounden, var af aðalsættum. Hún varð nítjánda Gray-barónessan árið 1895 þegar móðir hennar dó. Eveleen breytti ættarnafni barna sinna úr Smith í Gray á svipuðum tíma en hún hafði þá skilið við mann sinn.

Æska Eileen var nokkuð góð og þurfti hún ekki að líða skort vegna ríkidæmis foreldra sinna. En á unglingsaldri flutti hún á fjölskylduheimilið í Kensington í London og árið 1898 fór hún í Slade School of Fine Art. Aðeins tveimur árum seinna dó faðir hennar og móðir hennar fór með hana í ferð til Parísar á heimssýninguna frægu þar sem haldið var upp á allt það merkilega sem gerst hafði öldina á undan. Eiffel-turninn var byggður fyrir þá sýningu.

Art Nouveau-stíllinn var allsráðandi á sýningunni og varð Eileen afskaplega hrifin af verkum Charles Rennie Mackintosh. Ekki löngu eftir ferðina flutti hún til Parísar með vinum sínum úr Slade-skólanum. Hún hafði þá hætt í Slade en hélt námi sínu áfram í Académie Julian og Académie Colarrossi. Hún ferðaðist mikið milli Parísar og London og Írlands fyrstu fjögur árin eftir að hún flutti en árið 1905 veiktist móðir hennar svo að hún flutti aftur til London. Þegar þangað var komið hóf hún nám við Slade-skólann aftur en hún var orðin nokkuð leið á því að teikna og mála.

 

Skrautmunir

Í Soho-hverfinu í London gekk hún fram hjá búð sem lagaði trémuni með innlagðri skreytingu sem var lökkuð. Þessi aðferð var kölluð „lacqeur“. Hún fór inn í búðina og spurði eigandann hvort hann væri til í að sýna henni grunntökin í þessari trévinnslu. Hún bjóst ekki við því að fá jákvætt svar vegna kyn síns en honum var alveg sama og bauð henni starf hjá sér á staðnum. Eigandinn hafði mörg sambönd við aðra listamenn sem unnu við þetta og naut hún góðs af því.

Eileen flutti aftur til Parísar 1906 í íbúð sem hún átti eftir að vera í að mestu það sem eftir var af lífi hennar. Þegar þangað var komið hitti hún Seizo Sugawara, japanskan mann sem vann við þessa trésmíðagerð og tók hana undir sinn verndarvæng. Hann var alinn upp í Japan á tíma þar sem þessi gerð af innlögðum skreytingum var mjög vinsæl og hann hafði flutt til Parísar til þess að laga muni á heimssýningunni.

Eftir fjögur ár í vinnu hjá Seizo var hún komin með ofnæmi fyrir lakkinu sem var notað á viðinn en hún lét það ekki á sig fá og hélt áfram að vinna með það. Árið 1913 sýndi hún fyrstu skilrúmin sem hún gerði og skreytti með þessari aðferð og urðu þau afskaplega vinsæl. Hún var þá farin að hata Art Nouveau og reyndi að gera eitthvað meira módernískt. Seinna meir hafa skilrúmin verið sett í flokk með Art Nouveau sem fór mjög í taugarnar á henni.

 

Arkitektúr og húsgagnahönnun

Eileen flutti til London með Seizo meðan á fyrri heimsstyrjöldinni stóð en eftir hana fluttu þau aftur til Frakklands. Eileen var fengin til þess að innrétta íbúð á rue de Lota. Inn í hana hannaði hún heila vörulínu og þar á meðal einn frægasta stól sinn, Bibendum-stólinn. Það voru nú ekki allir sammála um fegurð hluta hennar og fannst mörgum hönnunin forljót. En þó sáu sumir nýjungina í hönnuninni og hrósuðu henni vegna þess. Hún opnaði búð stuttu seinna vegna aukinna vinsælda þar sem hún seldi hönnun sína og list eftir vini sína.

Stuttu eftir opnunina hóf hún samband við rúmenska arkitektinn Jean Badovici og hann ýtti á eftir henni að hanna heilt hús og fullkomna funksjónalismann. Árið 1924 byrjuðu þau að vinna húsið E-1027, nafnið var fengið með því að taka fyrsta stafinn í nafni Eileen, 10 stendur fyrir j-ið í Jean, 2 fyrir b-ið í Badovici og 7 fyrir g-ið í Gray. Þau voru heillengi að finna staðsetningu fyrir húsið en á endanum fundu þau stað í Suður-Frakklandi.

Húsið þótti einstaklega vel heppnað og þegar Eileen og Jean hættu saman leyfði hún honum að vera í húsinu. Le Corbusier var góður vinur Jeans og kunningi Eileen og kom oft í heimsókn eftir að þau hættu saman. Í fyrstu hrósaði hann henni fyrir húsið en virðist hafa orðið alveg afskaplega afbrýðisamur yfir því að hún hafði gert fullkomið hús í anda funksjónalismans sem hann hafði reynt í mörg ár. Hann málaði nokkur verk á veggi hússins að innan í algjörri óþökk Eileen og hafa verkin verið talin skemmdarverk. Ekki löngu síðar byggði hann hús beint fyrir aftan hús Eileen sem gerði hana enn reiðari.

Jean dó skyndilega árið 1956 án þess að hafa gert erfðaskrá en það var nokkuð óljóst hver ætti húsið. Le Corbusier hins vegar seldi húsið til konu sem hélt að hann hafði hannað húsið. Húsið var komið í mikla niðurníðslu um aldamótin síðustu en þá hafði franska ríkið keypt húsið og er búið að gera það upp í dag. Verk Le Corbusier voru gerð upp í ljósi sögu hússins, þó vita allir að þau eiga í raun ekki að vera þar.

Eftir seinni heimsstyrjöldina féll hún nokkurn veginn í gleymskunnar dá líkt og svo margir módernískir jafningjar hennar. Hins vegar féllu Le Corbusier og Mallet-Stevens aldrei úr minni almennings og var þeim reglulega hampað sem hugsjónamönnum.

 

Einkalífið

Eileen var tvíkynhneigð og var sögð hafa átt í ástarsambandi við Romaine Brooks, Gabrielle Bloch, Loie Fuller, söngkonuna Damia og Natalie Barney. Eileen og Damia áttu í slitróttu sambandi í einhver ár sem lauk endanlega árið 1938 og þær hittust aldrei aftur.

Við byrjun 8. áratugarins fór fólk að sækjast aftur í móderníska hluti og varð Eileen vinsæl á ný. Hún tók vinsældunum þó ekki hljóðalaust og lét fólk óspart vita hvað henni fyndist um uppsetningu hluta sinna. Eins fannst henni ómögulegt að fólk væri að gera upp gamla muni frá henni þar sem hún var farin að vinna mikið með plast á þessum tíma og fannst sín gamla hönnun vera gamaldags. Hún hins vegar sagði við ævisöguhöfund sinn að „maður verður að vera þakklátur öllu þessu fólki sem finnur hjá sér löngun til að grafa upp alla þessu gömlu muni og sjá um þá því annars gætu þeim öllum hafa verið eytt“.

Eileen vann í 14 tíma á dag allt til dauðadags þegar hún var 98 ára gömul. Hún var ætíð að safna í listamöppu sína en daginn sem hún dó hafði hún lagt sig og þegar nema hennar fannst hún hafa verið sofandi ansi lengi fann hann hana látna í rúmi sínu.

 

 

Related Posts