Hin ýmsu illmenni kvikmyndasögunnar:pick

Illmenni kvikmyndanna eru af ýmsum toga og nánast endalaust hægt að telja upp eftirminnilegar persónur, í stórum hlutverkum sem smáum. Hér á eftir verða talin upp nokkur hreinræktuð illmenni sem oftar en ekki eru á barmi geðbilunar. Þetta er þó einungis létt upprifjun á eftirminnilegum „vondu köllum“ og engan veginn tæmandi listi.

 

Illmenni Bond-myndanna

Varla undrast neinn þótt byrjað sé á hinni ódauðlegu Bond-seríu þar sem ýmsir „skrautlegir“ skúrkar hafa komið fram. Má þar fyrstan nefna Ernst Stavro Blofeld með hvítu kisuna í kjöltunni. Hann var nr. 1 í Spektra-glæpasamtökunum sem Bond þurfti oft að kljást við. Blofeld var í nokkrum Bond-myndum og leikinn af ekki ómerkilegri leikurum en Donald Pleasence (kallaði sig stundum einnig Pleasance) í You Only Live Twice, Telly Savalas í On Her Majesty’s Secret Service og Charles Gray í Diamonds are Forever. Max von Sydow lék svo Blofeld í Never Say Never Again sem var ekki „ekta“ Bond-mynd þó að hinn upprunalegi Bond, Sean Connery, fari þar með hlutverk leyniþjónustumannsins merkilega. Ástæðan er sú að myndin var ekki framleidd af Broccoli-fjölskyldunni sem á framleiðsluréttinn að Bond-seríunni. Til gamans má geta að í Never Say Never Again steig ung leikkona, Kim Basinger að nafni, sín fyrstu skref í bíómyndum.

Annað og ekki síður eftirminnilegt illmenni úr Bond-myndum er Jaws. Hann var með járnkjaft (eins og viðurnefnið gefur til kynna) og gat m.a. bitið í gegnum hold, bein og járn, auk þess að vera risastór og gífurlega sterkur. Honum til hróss skal sagt frá því að hann fann ástina í Moonraker og vann þess vegna það góðverk að bjarga Bond úr geimstöð sem var að springa í loft upp.

Max Zorin er þriðji og síðasti vondi kallinn sem nefndur er úr Bond-seríunni en hann er af mörgum talinn bæði sá eftirminnilegasti og klikkaðasti. Hann kom fram í myndinni A View to a Kill. Hann var leikinn af Christopher Walken sem sýndi stórleik og tókst fyllilega að koma áhorfendum í skilning um hversu geðtruflaður karakterinn væri. Sorin var með mikilmennskubrjálæði og fannst ekkert mál að reyna að drepa þúsundir manna og ögra bresku leyniþjónustunni, CIA og gömlu KGB á einu bretti. Geri aðrir betur.

Illmenni kvikmynda

ÓSIGRANDI: Með geislasverðið að vopni og Máttinn (the Force) í bakhöndinni til að yfirbuga óvini sína virtist hann ósigrandi.

 

Svarthöfði hinn ódauðlegi

Úr annarri myndaseríu, Star Wars, kemur Svarthöfði (Darth Vader), með rödd James Earl Jones mjög ógnvekjandi. Með geislasverðið að vopni og Máttinn (the Force) í bakhöndinni til að yfirbuga óvini sína virtist hann ósigrandi. Að lokum sneri hann þó af villu síns vegar og bjargaði lífi sonar síns í lok Return of the Jedi. En fram til þess tíma var hann undir áhrifum myrku hliðarinnar (the Dark Side) og sýndi þá af sér heiftarlega grimmd.

 

Hæglátur og lágmæltur morðingi

Eitt eftirminnilegasta illmenni kvikmyndasögunnar er án efa Hannibal Lecter. Tókst honum heldur betur að valda óhug í The Silence of the Lambs og túlkaði Sir Anthony Hopkins hann svo snilldarlega að hann fékk Óskarinn fyrir vikið. Það er löngu orðið frægt hversu ógnvekjandi hann var þegar andlit hans fyllti sýningartjaldið og hann talaði lágum rómi um það þegar hann stundaði mannát. Fleiri myndir hafa verið gerðar um sælkerann Hannibal, eins og Hannibal, Red Dragon og Hannibal Rising.

 

VI-the-shining-jack-nichols

FLOTTUR: Jack Nicholson lék illmennið og tókst honum heldur betur að láta hárin rísa á höfði áhorfenda

Redrum, redrum

„All work and no play makes Jack a dull boy.“ Þessi fleygu orð kannast allir við sem séð hafa myndina The Shining. Redrum (murder aftur á bak) og ofangreind setning urðu ódauðleg í kvikmyndum og er oft vitnað til þessara orða, eins og t.d. í Simpson-þáttunum. Jack Nicholson lék illmennið og tókst honum heldur betur að láta hárin rísa á höfði áhorfenda. Mörg eftirminnileg atriði eru í myndinni og má þar nefna þegar hann ætlar að drepa fjölskyldu sína og heggur með öxi á læsta hurð til að komast að henni, rekur svo höfuðið í gegnum gatið og segir enn eina ódauðlega setningu: „Here’s Johnny!“

 

Drakúla aftur og aftur

Vampíran Drakúla hefur svo oft verið kvikmynduð að ekki er hægt að hafa tölu á því. Margir frægir leikarar á borð við Christopher Lee hafa leikið Drakúla og margir aðrir minna þekktir. Margir hafa leikið hann eftirminnilega, eins og Klaus Kinski í Nosferatu, en þó er ekki á neinn hallað þó að fullyrt sé að greifanum hafi verið gerð eftirminnilegust skil í Bram Stoker’s Dracula, en þar var hann leikinn af Gary Oldman, í útgáfu sem var mjög trú bókinni.

 

Bráðsnjöll illmenni

Kevin Spacey í hlutverki John Does í Seven er eitthvert það svakalegasta illmenni sem sést hefur í kvikmyndum. Þegar myndin var gerð var Spacey lítt þekktur svo það var enn áhrifameira að sjá þennan geðsjúka einstakling gefa sig fram á lögreglustöðinni, alblóðugan, þegar allt lögreglulið borgarinnar var á eftir honum. Sama ár kom út önnur mynd með Kevin Spacey, The Ususal Suspects, en þar lék hann vægt til orða tekið frábærlega Kayser Soze sem var grimmdin uppmáluð. Sumir segja þó að ekki verði með fullri vissu slegið föstu að Spacey hafi í raun átt að vera Soze, hugsanlega hafi hann bara verið enn einn starfsmaður þess glæpasnillings.

 

Illmenni kvikmynda

EFTIRMINNANLEGUR: Norman Bates í Psycho, leikinn af Anthony Perkins, er svo sannarlega eftirminnilegur.

Hvar er mamma?

Norman Bates í Psycho, leikinn af Anthony Perkins, er svo sannarlega eftirminnilegur. Hið fræga sturtuatriði er úr þeirri mynd en síðar voru fleiri myndir gerðar um Norman Bates, auk þess sem upprunalega útgáfan var endurgerð. Fyrsta myndin í leikstjórn Alfreds Hitchcock ber þó höfuð og herðar yfir hinar, ekki síst vegna frábærrar túlkunar Perkins á hinu geðsjúka illmenni.

 

Óslökkvandi hefndarþorsti

Max Cody úr Cape Fear var, vægt til orða tekið, illgjarn, grimmur og hefnigjarn. Var það meistari Robert De Niro sem lék Cody og skildi þar með eftir sig eitt af ógleymanlegustu illmennum sem kvikmyndaáhorfendur hafa séð. Tilfinningalaus og siðblindari en andskotinn fer hann af stað í hefndarferð gegn fyrrum lögfræðingi sínum og fjölskyldu hans.

 

Samviskulaus mafíósi

Joe Pesci leikur Tommy í Goodfellas og skapar þar frábæran karakter. Þegar hann tekur æðisköst sín verður áhorfandinn mjög spenntur því aldrei er að vita hvernig það endar. Það sem gerir karakterinn jafnvel enn skelfilegri er að Goodfellas byggir á sannri sögu og var Tommy til í raunveruleikanum og síst ýktur í myndinni.

 

Spillt lögga

Stanfield, leikinn af Gary Oldman, í myndinni Leon er einhver spilltasta lögga sem sést hefur í kvikmyndum en hann er foringi lögreglumanna sem gera dauðaleit að lítilli stúlku til að þagga niður í henni þar sem hún hafði orðið vitni að því er þeir myrtu alla fjölskyldu hennar. Lag Bjarkar Guðmundsdóttur, Venus as a Boy, er leikið í myndinni og kemur kannski nett gæsahúð þegar lagið er spilað í lok hennar.

 

Madsen eitursvalur

Mr. Blonde, eða Vic Vega, í myndinni Reservoir Dogs verður og að nefna þótt það sé mögulega gert á kostnað annarra. Atriðið þegar Mr. Blonde, leikinn af Michael Madsen, sker eyrað af lögreglumanninum er eitt af „cult“ atriðum bíómyndanna, þar fer hinn eitursvali Madsen á kostum.

 

Viðbjóðslegur og ógnvekjandi

Loks má ekki gleyma Dennis Hopper sem lék hinn viðbjóðslega nítríusoxíðsniffandi mannræningja Frank í Blue Velvet. Hann er mjög ýktur karakter, í senn viðbjóðslegur og ógnvekjandi, sem neyðir næturklúbbssöngkonuna Dorothy til lags við sig með því að halda eiginmanni hennar og syni í gíslingu og hóta þeim lífláti láti hún ekki að vilja hans.

 

 

Í umfjöllun þessari hefur eingöngu verið fjallað um karlkynsillmenni í kvikmyndum en því má ekki gleyma að til eru mörg eftirminnileg kvenkynsillmenni líka, þó að þau séu vissulega færri. Svo nokkrar séu nefndar, þá gleyma eflaust fáir Cathy Bates, sem lék Annie Wilkes „Aðdáanda nr. 1“ í Misery, enda fékk hún Óskarinn fyrir. Þá má nefna Louise Fletcher í óskarsverðlaunahlutverki sem Nurse Ratched í One Flew over the Cuckoo’s Nest, ómanneskjulegri og tilfinningakaldari hjúkrunarkonu er sennilega ómögulegt að finna. Loks má nefna Bette Davis sem lék snilldarlega geðbrenglaðar og illgjarnar konur í myndum eins og Whatever Happened to Baby Jane? og Hush…Hush, Sweet Charlotte.

Hér á undan hefur verið stiklað á stóru og mörg illmenni og slátrarar eins og Freddie Kruger og Jason hafa ekki verið nefndir, enda af mörgu að taka og ekki hægt að koma öllum að. Ekki væri úr vegi að kíkja á einhverjar fyrrnefndra mynda og endurnýja kynnin við illmennin.

Related Posts