Miklar vangaveltur hafa verið í Hollywood um hvort stórstjarnan og leikstýran Angelina Jolie hljóti Óskarsverðlaunartilnefningu í byrjun næsta árs.

Nýjasta kvikmynd hennar, Unbroken (Óbugaður), hefur verið að raka inn umtali, bæði í tengslum við umfjöllunarefnið og fagtaktana hjá sjálfri Jolie.

Unbroken er stríðsmynd sem segir sanna sögu langhlauparans Louis Zamperini sem keppti á Ólympíuleikunum í Berlín árið 1936 og gekk síðan í bandaríska flugherinn þar sem hans biðu raunir sem hefðu gert út af við flesta aðra menn.

Zamperini var einn af ellefu manna áhöfn B-24 sprengjuvélar sem hrapaði í sjóinn suður af Hawaii eftir vélarbilun. Átta manns létust strax við höggið en Louis lifði af ásamt tveimur félögum sínum og við tók 47 daga barátta á litlum björgunarbát sem kostaði annan af félögum hans lífið á 33. degi. Þeim tveimur sem eftir lifðu var síðan bjargað um borð í japanskt herskip nær dauða en lífi, en þá tók lítið betra við enda var Louis sendur í stríðsfangabúðir þar sem hann þurfti að sæta miklu harðræði af hendi fangavarða sinna í rúmlega tvö ár .

Myndin verður frumsýnd á föstudaginn 2. janúar.

Related Posts