Þessu tölublaði af Séð og Heyrt er dreift í 75 þúsund eintökum með Fréttatímanum inn á öll heimili á höfuðborgarsvæðinu. Aldrei fyrr hefur Séð og Heyrt verið prentað í slíku upplagi og aldrei fyrr hafa fleiri fengið það í hendur á sama tíma.

Verði ykkur að góðu.

Þetta er gert í takt við nýja tíma en þó ekki síst í kynningarskyni fyrir fjölmiðil sem á erindi við allan almenning í hverri viku og þá ekki síst í því fjölmiðlalandslagi sem við búum við í dag. Séð og Heyrt er ekki bundið á klafa hagsmunaaðila og á blaðinu eru viðhöfð þau vinnubrögð sem tíðkast á öllum alvörufjölmiðlum úti í hinum stóra heimi. Efni frétta er sannreynt, haft er samband við þá sem um er fjallað og ef eitthvað misferst er það leiðrétt með áberandi hætti við fyrsta tækifæri.

Sérstaða Séð og Heyrt byggist á því að blaðið fjallar fyrst og fremst um fólk, eins og allar fréttir reyndar gera ef frá eru taldar náttúruhamfarir. Stundum hefur blaðið legið undir ámæli vegna þessa en sjaldnast með réttu því fréttir hljóta að fjalla um lifandi verur, líf þeirra og gjörðir.

Séð og Heyrt reynir þó alltaf að stíga varlega til jarðar, sýna aðgát í nærveru sálar og vanda til verka.

Nú þegar Séð og Heyrt er dreift í 75 þúsund eintökum inn á öll heimili á höfuðborgarsvæðinu ættu

fjölmargir sem ekki þekkja til blaðsins að geta kynnt sér efni þess, framsetningu og stíl og sannfærst um, eins og svo margir fastir lesendur blaðsins hafa vitað svo lengi, að Séð og Heyrt gerir lífið skemmtilegra – og veitir ekki af.

Eiríkur Jónsson

Related Posts