Þegar hafin eru störf á nýjum vinnustað er margt sem þarf að huga að. Það er ágætisbyrjun að reyna að kynnast vinnufélögum sínum ágætlega og þar með vita hvað þú mátt og mátt ekki grínast með, fátt er vandræðalegra en að segja eitthvað sem samstarfsfélaga finnst óþægilegt eða verður sár yfir. Þegar ég veit ákveðið mikið um samstarfsfélagana þá er komið að þeim að kynnast mér. Þetta má ekki gerast of fljótt því enginn nennir að hlusta á einhvern blaðra endalaust um sjálfan sig. Mér finnst best að leyfa vinnufélögunum að kynnast mér í nokkrum skrefum. Ég er lítið fyrir það að kynna sjálfan mig, og það sem ég hef afrekað, fyrir ókunnugum en ég leyfi þó fólki að kynnast mér, sækist það eftir því. Ég er nefnilega þannig gerður að það getur verið svolítið erfitt að komast að mér, ég vel vini mína vel og nenni sjaldnast að leggja mikla vinnu í það að kynnast öðrum sem ekki er nauðsynlegt fyrir mig að kynnast.

Þú verður að hafa húmorinn í lagi og það minnsta sem þú getur gert er að vera pínulítið áhugaverður. Leiðinlegt fólk er nefnilega leiðinlegt og óáhugavert fólk er mjög óáhugavert, það eru fæstir sem vilja vinna með þannig liði. Ég sjálfur reyni að vera hnittinn og alltaf er stutt í grínið. Það er þó alls ekki gert til að reyna að „fitta inn“. Sjálfum finnst mér ég geta verið mjög fyndinn og hlæ oft að sjálfum mér sem ég tel vera góðan kost.

Á síðustu þremur vinnustöðum  mínum hef ég alltaf verið yngstur, ekki veit ég af hverju en einhvern veginn hefur það þróast þannig. Það fylgja því ákveðnir kostir að vera yngstur á vinnustaðnum og hvað þá þegar þú ert nýgræðingur. Í byrjun er þolinmæðin hjá fólki mikil og það ber að nýta sér. Ég hef alltaf verið snöggur að læra hluti og þarf sjaldnast á mikilli hjálp að halda við störf. Sjálfur hef ég ekkert sérstaklega gaman af fólki sem er lengi að læra og get verið nokkuð óþolinmóður. Sem yngsti starfsmaðurinn vil ég heldur ekki fá stimpilinn „strákurinn“, „krakkinn“ eða „kjúklingurinn“ á mig.

„Strákurinn“ sem tók það skýrt fram hér að ofan að hann væri lítið fyrir það að kynna sjálfan sig er nú búinn að halda stutta kynningu á sjálfum sér. Lesendur munu kynnast mér betur með hverju blaðinu en látum þetta duga að sinni.

Garðar B. Sigurjónsson

 

Lesið Séð og Heyrt á hverjum degi!

 

 

 

Related Posts