„Það er yndislegt að vera Norðmaður í Danmörku“:

Norðmenn heimsóttu Danmörku sem aldrei fyrr í sögunni á síðasta ári. Opinberar tölur sýna að í fyrsta sinn voru seldar yfir 2,5 milljónir gistinátta til Norðmanna á ári. Þetta samsvarar því að annar hver Norðmaður hafi gist eina nótt í Danmörku í fyrra.

Í frétt í Berlingske Tidenede um málið segir að Norðmenn hafi ætíð verið hrifnir af því að eyða fríum sínum í Danmörku. Nær allir Norðmenn þekki hin 25 ára gömlu auglýsingaslagorð Visit Denmark sem segja: „Það er yndislegt að vera Norðmaður í Danmörku.“

Fram kemur í fréttinni að þessi aukna aðsókn Norðmanna sé enn eitt dæmið um að ferðamannaiðnaður Dana er að taka við sér að nýju en mikið dró úr heimsóknum ferðamanna til landsins í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008.

Norðmenn eiga þó langt í land með að ná Þjóðverjum hvað fjölda gistinátta varðar í Danmörku. Þýsku næturnar voru rúmlega 13 milljónir talsins á síðasta ári. Hlutfallslega þyrftu þýsku næturnar þó að vera um 40 milljónir talsins til að ná norska hlutfallinu.

Related Posts