Valgerður Bjarnadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, og Hjörtur Hjartarson, sem meðal annars hefur staðið Lýðræðisvaktina, ræddu málin og hafa sjálfsagt heyrt bergmál Búsáhaldabyltingarinnar á meðan.

Margréti Tryggvadóttur skolaði inn á Alþingi á vegum Borgarahreyfingarinnar í kjölfar Búsáhaldabyltingarinnar. Við tóku fjögur stormasöm ár sem hún hefur nú gert upp í bókinni Útistöður. Fjöldi fólks úr öllum áttum samfélagsins mætti í útgáfuhófið hjá Margréti en samt urðu engar útistöður í gleðskapnum. „Það féllust bara allir í faðma,“ segir Margrét um stemninguna í samkvæminu. Minna var hins vegar um faðmlög á tímanum sem hún fer yfir í bókinni. „Ég hef fundið fyrir rosalega miklum áhuga á bókinni enda er komið víða við á þessum fjórum viðburðaríku árum í Íslandssögunni.“

WikiLeaks-maðurinn Kristinn Hrafnsson mætti á staðinn til þess að tryggja sér eintak en fyrir því geta verið ýmsar ástæður en ein þó öðrum líklegri. „Það er heilmikil umfjöllun um WikiLeaks í bókinni og hann hefur örugglega viljað sjá hvað þar stendur.“ Margrét gefur bókina út sjálf og fjármagnaði útgáfuna með forsölu á Karolinafund. Þeir sem tryggðu sér ekki eintak þar geta þó gengið að henni vísri í næstu bókabúð. Lítið þýðir sennilega að bíða eftir að bókin birtist á WikiLeaks þar sem Margrét treystir því að Kristin leki henni ekki þangað.

Related Posts