VI1412108535-1

Nafn: Sif Sigmarsdóttir. Aldur: 36 ára. Starf: Rithöfundur og blaðamaður. Maki: Geir Freysson. Börn: Eitt. Gæludýr: Engin. Áhugamál: Leikhús og góður matur.

Sif Sigmarsdóttir er rithöfundur og sjálfstætt starfandi blaðamaður. Um þessar mundir er hún á fullu við að kynna nýjustu bók sína, Djásn, en hún er síðara bindi í framtíðartrylli sem ber yfirskriftina Freyju saga. „Í desember, ólíkt öllum öðrum mánuðum ársins, neyðumst við rithöfundar til að fara úr náttfötunum sem við erum í allt árið um kring, kveðja persónurnar í höfðinu á okkur og fara út á meðal alvöru fólks að kynna afurðir okkar,“ segir Sif.

 

Hvað ertu að lesa?
Ég er yfirleitt með nokkrar bækur í gangi í einu. Á Kindle-lesaranum sem ég elska út af lífinu les ég mikið á ensku en ég reyni alltaf að hafa eina íslenska á pappír með. Sú íslenska sem ég les núna er nýjasta bók Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Englaryk. Á lesaranum er ég alltaf með tvær bækur í takinu, eina skáldsögu og eina bók almenns efnis. Nú er ég að lesa skáldsöguna The Aftermath eftir Rihdian Brook og ótrúlega skemmtilega bók, um hvernig á að skrifa sjónvarpsþátta- og kvikmyndahandrit, sem heitir Into the Woods.

 

Hvað lastu síðast?
Síðasta bók sem ég las heitir The Bees. Um er að ræða áhrifaríka og frekar flippaða skáldsögu sem gerist í samfélagi býflugna. Höfundur bókarinnar, Laline Paull, er vinkona mín svo ég er vissulega hlutdræg en ég ætla samt að leyfa mér að fullyrða að The Bees sé með betri bókum ársins 2014, enda slógust útgefendur um útgáfuréttinn.

 

Hvaða bækur eru á náttborðinu þínu?
Á náttborðinu mínu liggur stór doðrantur sem er innblásturinn að næstu bók minni. Um er að ræða alfræðirit um geiminn en bókin er stútfull af magnþrungnum ljósmyndum frá NASA.
Hvaða bók hefur mótað líf þitt?
Ég held að sú lesning sem hefur hvað mest áhrif á mann sé það sem maður les sem barn. Til margra ára var uppáhaldsbókin mín Emma öfugsnúna sem fjallar um stúlku sem neitar að hlíta viðteknum venjum og gerir allt öfugt við hina. Foreldrum mínum eflaust til ama tók ég Emmu mér gjarnan til fyrirmyndar. Ég er þeirrar skoðunar að barnabækur séu mikilvægasta bókmenntagreinin en verð þó gjarnan vör við að mörgum finnist þær ekki alvörubókmenntir, það er hættulegt viðhorf. Hvernig er hægt að ætlast til að ungir lesendur taki bókmenntirnar sem þeim stendur til boða alvarlega ef hinir fullorðnu gera það ekki?
Hvaða lesefni mælir þú með?
Ég mæli með að fólk kíki á allt, sé opið fyrir öllu. Stærstu mistök lesanda eru að ákveða að hann sé búinn að finna sína bókmenntagrein, sinn höfund, og leita aldrei á önnur mið. Byrji maður hins vegar á bók sem manni finnst leiðinleg á maður alltaf að hætta lestrinum. Margir sperrast við að klára allar bækur sem byrjað er á en lífið er of stutt fyrir leiðinlegar bækur.

 

Hefur þú lesið einhverjar bækur oftar en tvisvar?
Ég trúi því að við lifum aðeins einu sinni og því beri okkur að nýta þetta eina líf í botn. Tíminn er takmarkaður og það er til svo mikið af bókum í veröldinni. Ég tími því sjaldan að lesa sömu bókina tvisvar. Það eru þó einstaka höfundar sem ég gríp til þegar mig vantar innblástur fyrir eigin skrif. Þetta eru meðal annarra Auður Jónsdóttir, Tryggðarpantur er í miklu uppáhaldi hjá mér; Kristín Marja Baldursdóttir, ég fæ ekki nóg af bókunum hennar um Karitas; Hallgrímur Helgason, það eru fáir jafngóðir í að skrifa hnyttnar og safaríkar málsgreinar og hann; og svo barnabókahöfundarnir Astrid Lindgren og Philip Pullman sem eru ástæðan fyrir því að ég ákvað að skrifa bækur fyrir unglinga.

 

Related Posts