New York, stóra eplið, eins og hún er stundum nefnd eða borgin sem aldrei sefur, er iðandi af mannlífi. Staðreyndin er sú að eftir því sem ég kem oftar þangað, vinnur borgin alltaf meira á við hverja heimsókn. Mannlífið, menningin og frábært úrval veitinga- og skemmtistaða gera hana að einni af mínum uppáhaldsborgum.

 

Mér líkar hversu borgarbragurinn er líflegur og fjölbreyttur og það er ávallt gaman að ganga um borgina sem kemur sífellt á óvart, snæða mat frá öllum heimshornum og skála til dæmis í kampavíni eða kokteil á einhverjum af fjölmörgum börum borgarinnar. New York er auk þess ein af helstu tískuborgum heims og þar er að sjálfsögðu mikið úrval verslana.

 

Nýjasta uppgötvun mín er Chelsea-hverfið sem ég heimsótti á dögunum þar sem blandast saman fjölbreytt mannlíf, háhýsi, umbreytt og endurnýjuð vöruhús í þessu vinsæla og annasama hverfi. Í hverfinu eru flottir veitingastaðir og einn af þeim stöðum sem er reyndar ekki veitingastaður, heldur eiginlega innanhússmarkaður, Chelsea Market, er í gamalli uppgerðri kexverksmiðju á milli Chelsea og Meatpacking District.

 

Þessi fyrrum kexverksmiðja, þar sem fyrstu Oreos-kexin voru bökuð árið 1912, hýsir tugi smásala sem bjóða upp á sælkeramat, vín, olíur, edik, te, krydd, gjafavöru, fataverslanir og búsáhöld. Þarna er allt milli himins og jarðar; vínbarir, hárskerar, skóburstarar og ein af síðustu sjálfstæðu bókaverslunum í New York. Ég fann þarna æðisgenginn ítalskan matarmarkað með gríðarlegt úrval af heimalöguðu fersku pasta, ekta taílenskan mat, nokkur sælkerabakarí, espressókaffihús, flotta súkkulaðiframleiðendur og spennandi fiskmarkað sem býður upp á eitt besta sushi í New York. Þvílík matar- og menningarflóra sem gefur tóninn í marga ólíka menningarheima. Eitt af aðaláhugamálum mínum er matur, matargerð og -menning og þess vegna nýt ég þess að prófa nýja staði og þessi fjölbreytti markaður hitti beint í mark. Matarkista fyrir mig að njóta, ég er svo kröfuhörð þegar kemur að mat.

 

Chelsea Market nær yfir heila húsaröð, hvort sem það er á lengd eða breidd, og er staðsett í svonefndu Meatpacking-hverfi. Ég heillaðist af fönkí iðnaðarstílnum sem gefur markaðinum bæði heillandi og skemmtilegt yfirbragð, sem og aldargamalli múrsteinsklæðningu sem prýðir húsið og gefur því einstakan karakter.

img_4648

Chelsea-markaðurinn hefur ótrúlegt aðdráttarafl þar sem fjöldinn allur af smásölum selur allt frá ferskum kleinuhringjum, ljúffengum crepes með Nutella, kóreskum súpum ásamt japönskum núðlum, seiðandi karamellum frá Brooklyn og ekta mexíkóskum götumat. Þarna er seld ýmis glæsileg hönnun af ýmsu tagi sem mér leist vel á. Svæðið hefur löngum tengst matarmenningu, allt frá slátrurum til indjána sem versluðu með uppskeru sína á bökkum Hudson-árinnar sem er skammt frá. Chelsea Market er ótrúlega spennandi og heillandi staður til að gera vel við sig í mat og drykk og engin ástæða til að láta sér leiðast eða fara svangur þaðan út. Ótrúlega gaman að sjá þess hlið borgarinnar og njóta og enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Sjöfn Þórðardóttir

Related Posts