_MG_6497

Anna Gréta Oddsdóttir skrifar

Ég upplýsti samstarfsmenn mína, yfir mig hrifin, að það væru einungis tveir dagar í fyrirhugaða New York-ferð mína.

Ég vinn með tveimur miðaldra mönnum sem fannst nú ekki mikið til þess koma. Þeir fussuðu og sveiuðu og sögðu að þeim þætti ekki mikið til borgarinnar koma. „Þessi borg er skítug, leiðinleg, hávær og allt of margt fólk sem þvælist fyrir þér, Anna Gréta,“ muldruðu þeir í barminn.
Þeir gætu ekki hafa haft meira rangt fyrir sér. New York er æðisleg.

Allt við New York var æðislegt, meira að segja flugið á leiðinni þangað. Við mér tóku brosandi flugfreyjur sem vildu allt fyrir mig gera. Ég fékk dásamlegt pastasalat og kók með til að skola því niður. Þær komu aðvífandi með teppi, kodda og augngrímu til að ég gæti hallað mér. Næst fékk ég kaffi og með því.

Þegar ég kom síðan til Manhattan tók mannmergðin mér opnum örmum. Mannmergðin var stútfull af litríkum karakterum sem lífguðu svo sannarlega upp á lífið. Ég spurði sjálfa mig að því hvort þeir væru ekki skrýtnir en svaraði sjálfri mér jafnóðum að það væri greinilega enginn skrýtinn hérna þar sem það væru svo margir skrýtnir og því tilheyrðu þeir meirihlutanum frekar en minnihlutanum.

Ég gerði allt þetta týpíska túristastöff en það átti ekki roð í að sitja bara á gangstétt og horfa á fólkið. Það var misjafnt sjónarhornið eftir því á hvaða götu ég sat. Tískudrósirnar löbbuðu hnarreistar um Fifth Avenue, túristarnir í I love New York-bolum, með pungana hangandi utan á sér, fylltu Times Square og ástfangin pör í sleik ferðuðust um Central Park í hestvögnum og gáfu hestunum gulrót að borða í laun fyrir ferðina.
Drykkirnir voru drukknir á rooftop-börum með útsýni yfir ljósadýrðina. Á klúbbunum var kærastanum gefnar tíu 30 dollara nærbuxur og sunnudagsvinkonukaffið var tekið í Central Park þar sem var meira pláss fyrir rassinn heldur en á Austurvelli á góðum degi.

Ég fór miður mín í flugvélina sem flutti mig heim til Íslands. Það var ókyrrð og ég svaf ekki dúr. Kjúklingasalatið var súrt og flugfreyjurnar pirraðar og svöruðu bónum mínum stuttaralega.

Ég var strax byrjuð að sakna New York.

 

Related Posts