Ég hef oft velt því fyrir mér hvaða orð sé magnaðasta orð í heimi. Hvaða orð býr yfir svo kynngimögnuðum galdrakrafti að ekki nokkur sála fær staðist kraft þess og orku.

Orðið sem veitir kraft, styrk og völd. Eftir margháttaðar pælingar og ýmsar tilraunir með fornar galdraþulur komst ég að raun um að magnaðasta orð í heimi er ekki abrakadabra né galdraþulan hókus pókus, heldur felst sannleikurinn í hinu einfalda orði NEI!

Þetta þriggja stafa orð. Magnað. Að segja NEI er mesti galdur sem ég hef framið og ykkur að segja, hann virkar.
NEI – mig langar ekki í happdrættismiða og þar sem fólk heldur að ég sé vel upp alinn þakka ég kurteislega fyrir mig og segi; en gangi þér vel með söluna, vinur.

móment áhg

NEI: Magnað orð.

NEI – ég hef ekki áhuga á því að taka þátt þessum leiðinlegu samræðum, mig langar miklu frekar að horfa á veðurfréttir.

Að segja NEI við börn hefur að margra mati hræðilegar og skelfilegar sálfræðilegar afleiðingar, þau breytast í sjálfsefandi einstaklinga með brotið sjálfstraust verði sagt nei við þau í æsku. Uhhh … NEI … ekki satt.

Það er börnum fátt hollara en að fá skýr skilaboð, NEI þú mátt ekki spila bannaða tölvuleiki! Ekkert kannski! Og alls ekki fara í rökræður við tíu ára gamalt barn um það hversu skemmandi Grand theft auto er fyrir sál þess. Eða hversu heimskulegt það er að senda nektarmyndir af sér út á veraldarvefinn, einungis tólf ára.

Hvers vegna er fólk svona feimið við NEI? Verður maður neikvæður eða svartsýnn við það eitt að setja mörk og segja NEI? Við hvað er fólk hrætt? Þegar ég áttaði mig á því hversu frelsandi orðið NEI er þá upplifði ég meiri gleði og jákvæðni í lífi mínu en nokkru sinni fyrr.

Þeir sem ganga, syngja í jákvæða kórnum alla daga, reyna hvað þeir geta að gera öllum til geðs og reksast svo á vegg þegar þeir uppgötva sér til skelfingar að ekki er hægt að gera allt fyrir alla alltaf.

Mesti galdurinn í lífinu er því að kunna að segja NEI. Þá stöndum við með sjálfum okkur – verum jákvæð – segjum NEI!

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Related Posts