NEGLDUR VIÐ SÆTIÐ

Margt var um manninn í Laugarásbíói þegar Hraunið, ný sakamálaþáttaröð, var forsýnd. Þættirnir eru framhald Hamarsins og eru á dagskrá RÚV næstu sunnudaga.

 

„Okkur foreldrunum stóð ekki á sama á tímabili, þetta er mest spennandi byrjun á sjónvarpsseríu sem ég man eftir og dóttir mín í bráðri hættu, þetta fékk svo sannarlega gamla hjartavöðvann til að titra,” viðurkennir Jakob Frímann Magnússon, miðborgarstjóri og faðir Jarúnar sem fer með eitt af aðalhlutverkum í Hrauninu. Jarún sló í gegn þegar hún söng og spilaði á píanó á afmælistónleikum
Pauls McCartney og vakti þar með athygli Reynis Lyngdal leikstjóra. „Reynir og Garún leikstjórar leituðu til okkar eftir að hafa séð myndbrot af henni frá afmælistónleikunum. Hún fór síðan í prufur og það gekk svona vel. Hún var fjarri heimilinu dögum saman úti á landi í tökum og á sama tíma að læra á fullu fyrir jólaleikrit Skoppu og Skrítlu, frekar annasamur tími fyrir sex ára stelpu,“ segir Jakob stoltur.

Forsýningin gekk afar vel og var fólk yfir sig hrifið og kepptist við að lofa aðstandendur. Jakob Frímann tekur í sama streng. „Mér fannst þetta ótrúlega flott og glæsileg vinna sem liggur þarna að baki. Leikurinn hjá öllum var til fyrirmyndar sem og kvikmyndataka, söguþráður og leikstjórn. Þetta er svo sannarlega tilefni til að fagna íslenskri dagskrárgerð.“ Jakob segir að Jarún sé einstaklega duglegt barn sem sé óhrædd við að elta drauma sína. „Hún hefur fengið alla þá ást, umhyggju og hvatningu sem barn getur fengið og það er besta veganesti sem barn býr að. Það er dásamlegur félagskapur að hafa hana í kringum sig,“ segir hann og brosir.

Þátturinn er tekinn upp á Snæfellsnesi og spilar náttúran stórt hlutverk. „Íslenska náttúran fær að njóta sín til hið ýtrasta og það er ekki til dásamlegra umhverfi heldur en Snæfellsnesið. Þættirnir draga upp drungalegan blæ og ég sat negldur við sætið allan tímann. Ég spái ákveðinni lömun í þjóðfélaginu þegar þættirnir verða sýndir næstu sunnudagskvöld.“

Related Posts