Nanna Ósk Jónsdóttir (40) var leynibarn:

Nanna Ósk Jónsdóttir er kona sem margir kannast við úr dansheiminum en hún hefur rekið Dance Center í Reykjavík í sjö ár. Hún hefur átt sinn þátt í að breyta dansmenningu í landinu og hefur fjöldi erlendra kennara komið til landsins á hennar vegum og kynnt nýja strauma og stefnur í dansi. Nanna hefur einnig starfað við markaðsmál í mörg ár, en hún er menntuð á því sviði. Nanna er dökk yfirlitum og það leynir sér ekki að hún er að einhverju leyti af erlendum uppruna.
Það er ekki nema ár síðan að Nanna og blóðfaðir hennar féllust í faðma í fyrsta sinn.

nanna

DANSSKÓLINN: Nanna stendur á tímamótum þar sem hún er að hefja störf hjá Iceland Travel og mun hún því koma rekstri dansskólans í aðrar hendur.

Leynibarn „Það var yngri systir mín og maðurinn hennar sem höfðu frumkvæði að því að hafa samband við mig. Þegar þau eignuðust dóttur vaknaði mikil þörf hjá Jane, systur minni, að setja sig í samband við mig. Eiginmaður hennar, Tom, hvatti hana áfram og studdi við hana í þessu ferli. Hún var með grátstafinn í kverkunum þegar hún hafði samband við mig, fréttirnar af tilvist minni komu þeim systrum á óvart. Hún sagðist hafa fundið fyrir miklu samviskubiti að hafa ekki haft samband fyrr en móðir þeirra vissi ekkert af mér og því voru þetta viðkvæmar fréttir fyrir hana og pabba að hún hafi haft samband við mig. Það var ekki aftur snúið með þetta og úr varð að ég ákvað að hitta pabba,“ segir Nanna.

Endurfundir
„Það er svona ár síðan ég hitti blóðföður minn en hef alltaf átt föður, sem hefur verið
í mínu lífi og það er ómetanlegt. Ég er afar lánssöm, hann tók, mig – þetta 5 ára stelpuskott – að sér. Faðir minn er mikill afi, dýrkar barnabörnin sín út af lífinu og nú hafa börnin mín fengið enn einn afann sem nostrar alveg við barnabörnin. Gæti ekki verið betra,“ segir Nanna þakklát fyrir feðurna í lífi sínu.
Ætlaði ekki að gráta
„Ég gerði mér ferð til London í tvennum tilgangi, bæði til að fara hitta blóðföður minn í fyrsta skipti og að vera viðstödd fertugsafmæli hjá nánustu æskuvinkonu minni, Önnu Dóru, sem er búsett í Englandi. Allar æskuvinkonur mínar úr Kópavogsskóla voru mættar til hennar Önnu Dóru og þær voru viðstaddar þegar ég hitti föður minn í fyrsta sinn. Ég var orðin verulega stressuð að bíða eftir honum, það flæddu tilfinningar út um allt. Mjög margir, aðallega karlmenn, höfðu varað mig við að gera mér ekki miklar vonir með endurfundina og var ég því búin að undirbúa mig vel andlega. Eiginlega svo vel að ég tók þessu nánast eins og viðskiptafundi og var afar öguð og nánast köld. Ég ætlaði svo sannarlega ekki að fara að grenja. Ég hafði heyrt að fullorðnir menn hefðu nefnilega hreinlega brotnað niður þegar þeir hefðu reynt að nálgast föður sinn, sem síðan hefði skellt á þá og afneitað þeim algjörlega. Svona hryllingssögur hafði ég heyrt.“

nanna

NANNA MEÐ PABBA SÍNUM: Chan, faðir Nönnu, og eiginkona hans, Supranee, á ferð sinni um Ísland.

„My Baby“
„Faðir minn renndi í hlað og kom mjög hrærður út úr bílnum með tárin í augunum, gamli maðurinn, gekk í áttina að mér, með faðminn útréttan, sagði „My baby“ og klappaði á
kollinn á mér. Ég var bara pollróleg en átti svo sannarlega ekki von á þessum viðbrögðum.
Að finna þarna strax tengingu og hvað hann var opinn, glaðlegur og hlýr. Faðmaði mig að
sér og sagði: „I´m so lucky“. Ég bráðnaði um leið og varð eins og smástelpa. Hann var bara alveg ótrúlega krúttlegur maður og ég fann að mér þótti strax vænt um hann. Þetta var töfrum líkast að finna strax svona „samstæðu“ við eigin persónuleika. Hann er opinn, hlýr og góðmennskan uppmáluð, hafði ekkert að fela. Ég á þetta á upptöku og þar heyrist bara grátkórinn í æskuvinkonum
mínum, sem voru þarna nokkrar í leyni að fylgjast með.“
Amma örlagavaldur
„Amma mín, sem ég er nefnd eftir, hafði alla tíð geymt miða með upplýsingum um föður minn, hún var einnig með mynd af honum. Hún lá á þessu eins og ormur á gulli þar til að ég væri orðin nógu þroskuð að hennar mati til að fá þessar upplýsingar.“

Nönnu var vel tekið, hafði á einu bretti eignast tvær systur og föður. Henni var tekið opnum örmum og blásið var til heljarinnar garðveislu til að fagna henni.

„Ég hitti konuna hans, sem tók mér opnum örmum. Hún þurfti að sjálfsögðu að hafa tíma til að meðtaka þessar skyndilegu fréttir um dótturina frá Íslandi sem hún hafði aldrei heyrt af. Þetta var allt svo eðlilegt, eins og ég hefði þekkt þessa fólk alla mína ævi – heimurinn hjá mér stækkaði svo um munaði og það út fyrir landsteinana, sem mér finnst ekkert leiðinlegt og mikið öryggi fyrir mig og börnin mín í framtíðinni að hafa þessi tengsl úti.“

Búdda og Skype
“Pabbi og konan hans eru frá Tælandi og þau komu bæði mjög ung til Bretlands og hafa búið þar alla tíð. Þau eru Búddistar og lífsviðhorf þeirra einkennist af því. Þau eru öll stolt af uppruna sínum og hlúa vel af því að dætur þeirra og barnabörn kynnist Búddisma og Tælenskri menningu.”
Þrátt fyrir að höf og lönd skilji Nönnu og nýju fjölskylduna að eru samskiptin mikil.

“Við spjöllum saman á Skype, Facebook og svoleiðis. Þau eru alltaf að athuga hvernig ég hafi það.
Þau hafa líka komið í heimsókn og það var virkilega frábært. Já, bæði kom faðir minn með konunni sinni og gistu hjá mér og síðan kom Jane systir mín með vinkonu sinni í afmælisstelpuferð og gisti
hjá mér og síðan á ég von á að hin systir mín komi með manninum sínum og nýja barninu í sumar. Þau elska Ísland, allt svo hreint, fallegt, reyndar doldið dýrt og fannst að það mætti alveg vera hlýrra. Ég er lukkunarpamfíll að hafa átt uppeldispabba minn og fá síðan að kynnast blóðföður mínum. Það er mikilvægt að hjálpast að í gegnum lífið. Við höfum bara eitt líf – eins gott að vanda sig – lifa því lifandi í sátt við sig og sína,” segir Nanna sátt við lífsins örlög.

Sjáið allar myndirnar í Séð og Heyrt!

Related Posts