„Verið velkomin í jóga. Jóga er ekki keppni heldur leið til að hreinsa hugann og einbeita sér að andardrættinum.“ Þetta var það fyrsta sem ég heyrði þegar ég mætti í minn fyrsta jógatíma um daginn. Þarna horfði ég með undrunaraugum á jógakennarann þar sem hún sat með krosslagðar fætur og leit út fyrir að vera á einhverjum virkilega sterkum deyfilyfjum. Það hefði ekki komið mér á óvart hefði hún byrjað að svífa um herbergið á jógamottunni.

Þar sem ég sat á mottunni minni og átti í mestu erfiðleikum með að krossleggja fætur byrjaði ég að fylgja kennaranum og herma eftir alls kyns jógaæfingum. Ég stóð þarna og reyndi hvað ég gat að halda jafnvægi sem „Stríðsmaður eitt“. Svitinn lak niður en þó ekki vegna áreynslu heldur aðallega vegna kvíða yfir því að líta út eins og hálfviti. Þetta endaði auðvitað með því að ég leit út eins og hálfviti, kófsveittur að teygja mig.

„Stríðsmaður tvö“ var heldur skárri. Líkaminn orðinn heitur og öndunin, sem skiptir jú mestu máli í þessu, komin í lag. Þegar báðir Stríðsmennirnir höfðu lokið sér af var komið að „Hundinum“. Á fjórum „fótum“ átti ég í mestu basli við að missa ekki jafnvægið og hrynja í gólfið. Seiðandi tónlistin róaði mig og loks þegar ég var kominn með Hundinn á hreint var komið að „Vinyasa“.

Jógakennarinn gerði Vinyasa-æfinguna óaðfinnanlega og magnað að fylgjast með því hvernig hún var í fullkomnu jafnvægi. Líkami hennar sem áll og hún skellti sér í Vinyasa fram og til baka með mikilli reisn. Á meðan lá ég á gólfinu eins og selur á strönd. Ólíkt refafóðrinu í Húsdýragarðinum þá var ég ekki að leita að undankomuleið. Það var eitthvað svo róandi við þetta. Þetta var langt frá því að vera fallegt en ég huggaði mig þó við það að skyldi einhver vera að horfa á mig fengi hann ágætisskemmtun út úr því, það gladdi mig.

Í lok tímans var komið að þeim hluta sem ég hafði hlakkað hvað mest til – slökuninni. Þarna lá ég eins og marglytta, með kodda og teppi, og fann hvernig Namaste, Vinyasa, Stríðsmaðurinn og hvað þetta allt heitir tók yfir líkama minn og ég var kominn í hið fullkomna jafnvægi. Öndunin var í fullkomnum takti og líkami minn eins slakur og hann getur orðið. Þegar ég gekk út úr jógasalnum var ég eins og nýr maður. Endurnærður og tilbúinn til að takast á við amstur dagsins. Amstur dagsins þennan dag fólst þó í því að liggja upp í sófa og horfa á fótbolta en ég er sannfærður um jógatíminn hafi gert þá æðislegu iðju enn betri.

Garðar B. Sigurjónsson

Lesið Séð og Heyrt á hverjum degi!

Related Posts