MYNDIR SEM RÓA HUGANN OG AUKA LÍFSSKILNING

Óttar Proppé (46) langar í verk eftir Einar Örn (52) í jólagjöf:

 

Fyrrverandi Sykurmolinn Einar Örn Benediktsson sýndi á sér nýja hlið þegar hann opnaði sína fyrstu myndlistarsýningu í Gallerí Listamenn. Vinir Einars Arnar fögnuðu með honum og alþingismaðurinn Óttarr Proppé, sem starfaði náið með Einari Erni í borgarstjórn á síðasta kjörtímabili, hreifst mjög af teikningum vinar síns og langar í verk eftir hann.

 

Þúsundasta þjölin Tónlistarmanninum og borgarfulltrúanum fyrrverandi, Einari Erni Benediktssyni, er margt til lista lagt og nú hefur hann sýnt á sér enn eina hliðina með því að stíga fram sem myndlistarmaður.

Alþingis- og tónlistarmaðurinn Óttarr Proppé hefur brallað ýmislegt með Einari Erni í gegnum tíðina. Hann leit inn á opnun fyrstu myndlistarsýningar Einars og hreifst mjög af því sem fyrir augu bar, enda hefur hann lengi beðið eftir því að vinur sinn stigi fram sem fullskapaður myndlistarmaður.

„Þetta var stórkostlegt og ég er ekki frá því að Einar hafi fundið enn eina fjölina,“ segir Óttarr og hrifningin leynir sér ekki í röddinni. „Hann hefur lengi verið einn af mínum uppáhaldstónlistarmönnum og sérstaklega uppáhaldsdansarinn minn og það er augljóst að danshæfileikarnir skila sér út í teiknihöndina.“

Óttarr segir þennan hæfileika Einars ekki hafa komið sér mikið á óvart. „Hann hefur lengi verið einn þekktasti laumumyndlistarmaður landsins og hefur meðal annars hannað bókakápur fyrir Braga Ólafsson,“ segir Óttarr og bætir við að hann hafi lengi beðið eftir að Einar tæki stóra skrefið og gerðist gallerí-listamaður.

Og Óttarr segist vel geta hugsað sér að fá mynd eftir Einar Örn í jólagjöf. „Það er ekki spurning. Maður sér persónur lifna við í myndunum hans. Bæði persónur sem maður þekkir úr hans eigin prívat galleríi og úr umhverfinu. Ég er alveg viss um að þetta eru myndir sem myndu róa hugann og auka lífsskilning manns ef maður hefði þær hangandi yfir sér dagsdaglega.“

Related Posts