Athyglisverð samantekt er hér í blaðinu í dag um Morfísstjörnurnar; krakkana sem slógu í gegn í ræðukeppnum framhaldsskólanna hér áður fyrr. Nú, mörgum árum síðar, kemur í ljós að eitt eiga þau flest sameiginlegt – þau hafa notið velgengni í samfélaginu sem segir reyndar meira um samfélagið en þau.

Nú er það svo að í Morfís skiptir sannleikurinn engu máli. Morfís er íþrótt í að rífa kjaft og rökræða rakanna vegna. Eins og skylmingar með orðum sem í raun engu skipta. Morfísliðin eru með þjálfara eins og önnur íþróttalið og svo eru líka dómarar eins og vera ber.

Eins og samantekt Séð og Heyrt ber með sér hefur margur Morfískappinn haslað sér völl í stjórnmálum eða þá á öðru sviði þar sem leikaraskapurinn er inntak framgöngunnar. Þeir sem hafa æft ræður og fært rök fyrir því að djöfullinn sé góður, lygin jafnnauðsynleg sannleikanum eða hreinlega að vont sé betra en gott fara létt með að taka þátt í samfélagsumræðunni og kaffæra aðra með kjaftæði.

Ekki svo að skilja að Morfís sé ekki gott fyrir sína parta og hafi uppeldislegt gildi fyrir ungmenni sem þurfa að sigrast á feimni æskunnar og óöryggi gelgjunnar. En þegar fyrir liggur að íslensku þjóðinni er meira og minna stjórnað af fullorðnum Morfíshetjum verður sú staðreynd skiljanlegri, sem fæstir vilja kannast við eða samþykkja, að samfélagið allt er límt saman á lyginni og virkar ekki öðruvísi.

Séð og Heyrt vill gera lífið skemmtilegra og betra og góð byrjun væri að einskorða Morfíshátíðirnar við samkomusali eiríkur jónssonframhaldsskólanna og láta okkur hin svo fá frið fyrir kjaftaganginum þegar út í lífið er komið.

Það væri ágætis byrjun.

Eiríkur Jónsson

Related Posts