Haukur Viðar Alfreðsson (34) sýnir stuttmynd:

 

VENUR SIG Á POTTINN: Þótt hann hafi gert stuttmynd um nöldurkarla í heitum potti hefur hann ekki vanið sig á pottinn en það stendur til bóta.

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík, RIFF, hefst í vikunni. Að venju verður svimandi framboð á áhugaverðum kvikmyndum af öllum gerðum. Tónlistarmaðurinn og pistlahöfundurinn Haukur Viðar Alfreðsson sýnir á hátíðinni stuttmynd sem hann gerði fyrir nokkrum árum í heitum potti sundlaugar. Myndin heitir Steingrímur og fjallar um tvo roskna nöldurseggi sem takast á í heita pottinum í Sundhöllinni.

Pottagaldur „Þetta er orðið hundgamalt. Myndin var útskriftarverkefni mitt frá Kvikmyndaskólanum 2007,“ segir Haukur Viðar. Myndin var sýnd við útskriftina en hefur annars ekki komið fyrir sjónir almennings fyrr en nú.

Myndin heitir Steingrímur og verður sýnd í tvígang á RIFF. Annars vegar 30. september í heitum potti Sundlaugar Kópavogs og 1. október í Vesturbæjarlauginni. Sýningarstaðirnir eru vægast sagt viðeigandi þar sem myndin gerist mikið til í heita pottinum í Sundhöllinni.

„Steingrímur fjallar um tvo aldraða óvini sem hittast á hverjum morgni í Sundhöllinni í Reykjavík. Þar rífast þeir daglega um þjóðmál og pólitík og eru gersamlega á öndverðum meiði. Þetta eru ríkjandi illindi en síðan fellur annar þeirra frá og þá dæmist á hinn að koma honum ofan í jörðina þar sem sá látni var einstæðingur.“

Haukur Viðar fékk þungavigtarleikarana Gunnar Eyjólfsson og Erling Gíslason til þess að leika karlana. „Myndin gerist að hluta í pottinum og ég sá það mjög fljótlega að ég væri ekki að fara að leikstýra einum né neinum án þess að skella mér sjálfur í skýlu og ofan í pottinn. Við byrjuðum að taka milli klukkan 5 og 6 að deginum og kláruðum um miðnætti. Þá voru allir þarna orðnir vel soðnir.“

Þrátt fyrir yrkisefnið segist Haukur Viðar ekki vera mikill pottakarl. „Ég hef ekki verið það hingað til en var að flytja beint á móti Sundhöllinni þannig að ég hyggst hefja pottakarlaferil minn klukkan 7 á mánudagsmorgun og vona að mér verði vel tekið.“

Related Posts