Kristján Möller (61) ber góðgæti frá Siglufirði í félaga sína:

Þingmennirnir Össur Skarphéðinsson og Árni Páll Árnason eru sólgnir í bakkelsi frá Aðalbakaríinu á Siglufirði. Þeir eru svo heppnir að félagi þeirra í Samfylkingunni, Kristján Möller, er Siglfirðingur í húð og hár og þegar hann heimsækir heimahagana fer hann alltaf með pöntun frá félögum sínum.

Árni Páll pantar alltaf ástarpunga en Össur flatkökur. Þessir tveir tóku Kristjáni því fagnandi í vikunni þegar hann kom færandi hendi. Árni byrjaði strax að úða í sig ástarpungum en Össur hélt aftur af sér með flatkökurnar þar sem hann vantaði smér og hangiket. Kristján þykist þó vita að bakkelsið hafi runnið ljúflega ofan í Össur að kvöldi afhendingardagsins.

Og þótt þessir höfðingjar séu jafnaðarmenn er Árni Páll fastheldinn á pungana. „Aðstoðarmaður Árna bað hann um að gefa sér og smakka, en Árni sagðist bara hafa fengið tvo poka og væri því ekki aflögufær,“ segir Kristján fullur þakklætis Aðalbakaríinu fyrir að fóðra þessa félaga sína á siglfirsku bakkelsi.

Related Posts