Ingibjörg María Símonardóttir (25) járningakona:

Ingibjörg María, járningar, mjólkurfræðingur, hestar

BYRJAÐI Í DANMÖRKU: Ingibjörg byrjaði að járna af alvöru þegar hún var í námi í mjólkurfræði í Danmörku.

Ingibjörg María hefur verið í hestamennsku frá því að hún man eftir sér. Þegar hún var í námi í mjólkurfræði í Danmörku byrjaði hún að járna hross og hefur ekki lagt frá sér hamarinn og fjaðrirnar síðan.

„Ég er sjálflærð í að járna en er búin að vera dugleg í að fara á námskeið til að auka við þekkinguna,“ segir hestakonan og mjólkurfræðingurinn Ingibjörg María sem starfar við járningar samhliða vinnu sinnu hjá MS.

„Ég var að vinna hjá Mjólkursamsölunni þegar þeir buðu mér samning og tækifæri til að fara til Danmerkur í nám í mjólkurfræði. Ég var í Danmörku í þrjú ár þar sem ég lærði allt sem tengdist því hvernig skal vinna mjólk.“
Þó að Ingibjörg starfi sem mjólkurfræðingur þá þolir hún sjálf illa mjólk. „Ég þoli illa mjólkurvörur og drekk eiginlega ekki mjólk, ég skelli í mig einni kókómjólk annað slagið,“ segir hún og hlær.

Járningar hafa hingað til verið taldar karlmannsverk en Ingibjörg vísar því á bug og ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. „Þetta er sannarlega erfitt en þú þarft ekki að vera sterkur heldur frekar að kunna að beita líkamanum rétt. Ég er mest í þessum almennu járningum en hef aðeins verið að reyna fyrir mér í keppnisjárningum. Þar er ég að járna keppnishross og það er aðeins erfiðara en alls ekki óyfirstíganlegt. Eftir námið tók ég mér ársfrí og fór að vinna á hrossabúinu Oddsstöðum hjá járningameistaranum Sigurði Oddi. Hann kenndi mér mikið.“

Ingibjörg segist hafa mætt fordómum þegar karlmenn heyra að hún sé að járna hross. „Ég fæ það oft á tilfinninguna að karlmenn skammist sín fyrir það þegar þeir heyra að konur séu byrjaðar að járna. Menn hafa jafnvel gengið það langt að banna mér að járna hrossin sín af því að ég er kona. Ég er alin þannig upp að ég geri allt sjálf, þannig að svona mótlæti eflir mig bara. Ég ætla að sýna þeim í tvo heimana,“ segir Ingibjörg brosandi en ákveðin.

Related Posts