Garðar Sverrisson (56) var besti vinur Bobby Fischers (1943-2008):

Á dögunum kom út bókin Yfir farinn veg með Bobby Fischer eftir Garðar Sverrisson. Garðar var nánasti vinur skáksnillingsins og í bókinni fá lesendur að kynnast manninum á bak við þá ráðgátu sem Fischer var flestum í lifandi lífi.

 

Garðar Sverrisson

HAFÐI ANNAN MANN AÐ GEYMA: Garðar vill leiðrétta þá staðalmynd sem dregin hefur verið upp af Bobby vini hans sem hálfsturluðum snillingi.

Vinir í raun „Mér líður vel og miðað við ýmsa jafnaldra hef ég eiginlega ekki undan neinu sérstöku að kvarta. Hef bara sloppið vel og er í svipuðu formi og ég var fyrir tíu árum,“ segir Garðar sem hefur glímt við MS-sjúkdóminn um árabil og er fyrrverandi formaður Öryrkjabandalagsins.
„Það eru ellefu ár síðan Bobby fór að hringja reglulega í mig frá Japan og spjalla um alla heima og geima þótt tilefnið hafi verið að losna úr varðhaldinu þar eystra,“ segir hann um upphaf vináttu hans við þetta undrabarn skáklistarinnar. „Við þekktumst því orðið ansi vel þegar hann komst loksins til Íslands nokkrum mánuðum seinna, á elleftu stundu, vegna framsalskröfu Bandaríkjastjórnar. Hér heima urðum við fljótt góðir vinir og fyrr en varði var ég og fjölskylda mín orðin hans nánustu vinir og eina fólkið sem hann umgekkst eftir að veikindin tóku að hrjá hann.“

Skapríkur og tæpitungulaus
Hvað rak þig til að skrifa þessa bók og hvernig voru samskipti ykkar Fischers?
„Eftir að Bobby féll frá var mér bent á að ég væri í þeirri undarlegu stöðu að hafa ekki aðeins verið nánasti vinur hans síðustu æviárin, heldur einn fárra náinna vina sem hann eignaðist um dagana. Eins og aðrir hef ég ekki komist hjá því að taka eftir þeirri vaxandi umfjöllun sem verið hefur um Bobby þar sem vestræna fjölmiðla hefur klæjað mest eftir hvers kyns vitleysu sem rammað gæti inn staðalmyndina af hálfsturluðum snillingi og óskiljanlegri ráðgátu. Í þessari bók er ég einfaldlega að koma til móts við það góða fólk sem hefur ósvikinn áhuga á að kynnast manninum sjálfum á bak við þá ráðgátu sem hann er sagður hafa verið, þeim heilsteypta og góða dreng sem ég og fjölskylda mín kynntumst svo vel. Auðvitað var hann á ýmsan hátt sérsinna og átti til að vera fulltæpitungulaus og stundum skapríkur, rétt eins og sumir frændur mínir af Rauðkollsstaðaætt. Á hinn bóginn var hann líka ljúfmenni, gjafmildur og einstaklega barngóður, hrifnæmur og talaði fallega um fólk sem honum fannst mikið til um, en þar var móðir hans ofar öllum öðrum. Ég hef aldrei heyrt fullorðinn mann tala af meiri virðingu og hlýju um móður sína en Bobby gerði. Já, hann var á mjög margan hátt gerólíkur þeirri mynd sem dregin hefur verið upp af honum.“

Fékk frið til að deyja
Kom þér á óvart að þú lifðir hann?
„Maður hugsar aldrei út í svona. Hann var nú ekki nema 62 ára þegar hann kom til Íslands og við höfðum enga ástæðu til að ætla annað en fram undan væru fjölmörg skemmtileg ár. Allt fram á síðustu vikur reyndum við að telja hvor öðrum trú um að heilsa hans gæti lagast. Allt þar til það var orðið of seint að grípa inn í með aðgerðum sem hann gat ekki hugsað sér. Við vildum ekki trúa því að hann væri að deyja. Ég var alltof lengi að gera mér fulla grein fyrir í hvað stefndi. Eftir á að hyggja var það kannski betra fyrir okkur báða. Hann fékk þá allavega frið til að deyja eins og hann sjálfur vildi.“

Garðar Sverrisson

EINA MYNDIN: Garðar og Fischer með Eddu Þráinsdóttur, ekkju Freysteins Þorbergssonar, mannsins sem hafði úrslitaáhrif á að Bobby mætti til leiks á Íslandi sumarið 1972. Þetta er eina myndin sem til er af vinunum saman.

Related Posts