Mér varð það ljóst einn daginn að það var orðið langt síðan ég hafði lagt leið mína í kvikmyndahús. Ég hafði ekki fylgst mikið með nýjungum í bíó þannig að ég kom að fjöllum þegar velja átti mynd.

Ég brá því á það ráð að hafa samband við einn félaga minn sem vinnur sem bíógagnrýnandi. Ég bað hann um að mæla með mynd fyrir mig og kærastann sem hann gerði einn daginn.

Þegar ég kom heim það sama kvöld sagði ég spennt við kærastann að ég væri búin að finna svakalega góða mynd. Myndin væri frönsk og hún væri almennt búin að fá góða gagnrýni. Hann spurði á móti hvort við ættum ekki frekar að fara á ofurhetjumyndina The Avengers? Ég setti upp snúð og svaraði: „Nei, við þurfum að vera menningarlegri og þess vegna ætlum við á þessa frönsku mynd en ekki einhverja Hollywood-stórmynd sem fjallar um fljúgandi menn.“

Leiðin lá því í hið virta Háskólabíó. Ég byrjaði á því að fara í sjoppuna og gerði vel við mig –fékk mér ís, Hockeypulver (gult að sjálfsögðu) og popp. Ég hugsaði með mér að ég ætti þetta skilið.

Til að gera langa sögu stutta þá var myndin grútleiðinleg. Ég held að ég hafi aldrei farið á jafnleiðinlega og langdregna mynd. Það skemmtilegasta við þessa löngu tvo tíma var þegar ég fór að pissa í hléinu.

Ég gekk út úr bíóinu með skottið á milli lappanna tilbúin að taka við skemmtilegu setningunni: „Ég sagði þér það“ frá kærastanum. Þar sem hann er einstaklega ljúfur náungi þá sleppti hann að segja þá setningu.

Mér finnst ógeðslega leiðinlegt að fara í leikhús og kýs yfirleitt bíó fram yfir leikhús. Ég segi þetta ekki við nokkurn mann þar sem ég vill ekki verða mér til skammar og vera kölluð menningarsnautt fífl af samborgurum mínum.

Ég hef þó tekið þá ákvörðun að hætta að reyna vera menningarlegri en ég er og vera bara ég sjálf – sem er manneskja sem fer á ofurhetjumyndir. Því ég fæ aldrei aftur þessa tvo tíma sem ég eyddi í áhorf á þessa frönsku mynd.

Anna Gréta Oddsdóttir

Related Posts