París! Borgin þar sem engar umferðarreglur virðast gilda, sniglar eru herramannsmatur, segi ykkur frá því síðar, og þar sem enginn talar ensku. Þangað fór ég um daginn.

Ég og kærastan mín skelltum okkur til Parísar um daginn ásamt pabba mínum og fjölskyldu hans. Við höfðum leigt okkur íbúð í um kílómeters fjarlægð frá Eiffel-turninum og markmiðið var að upplifa franska menningu, þá sérstaklega matarmenninguna, sem hófst á því að við fórum á ítalskan pizza-stað fyrsta kvöldið, og svo að drekka rauðvín og smakka snigla.

Sniglar eru algjört lostæti, því lýg ég ekki. Ég viðurkenni það fúslega að ég þurfti að herða mig upp til að panta mína fyrstu snigla. Einhver hafði logið því að mér að þeir yrðu djúpsteiktir og litu í raun ekkert út eins og sniglar, meira svona eins og djúpsteiktar rækjur frá Nings. Það var lygi …

Á diskinn fékk ég sex snigla í skel sem höfðu drukknað í hvítlauk og olíu. Þar sem ég stakk fyrsta sniglinum upp í mig var mér litið á kærustu mína og miðað við svipinn á henni var ég ekki að fara að fá koss í nokkra daga. Þegar ég beit í snigilinn var mér hugsað til Simba úr Lion King. Hann hafði rétt fyrir sér! Slímugur – en bragðgóður.

Cooked_snails

Þegar öll þessi sniglaveisla var á enda, var kominn tími til að skoða París. Borgin er stórkostleg og þá sérstaklega þegar horft er yfir hana úr toppi Effeil-turnsins. Mona Lisa vildi ekki brosa fyrir mig og Venus nennti ekkert að gefa mér háa-fimmu en Louvre-safnið stóð þó fyrir sínu. Næturlífið í París er ekki beint upp á marga snigla en þó ber að hafa í huga að drukknir Írar voru fjölmennir. Franska matargerðin stóð svo sannarlega fyrir sínu og rauðvínin voru rauð og fín. Hef ekki meira um það að segja enda meiri bjórmaður.

Þegar ég var búinn að draga kærustuna mína út um alla París, skoða hvern krók og kima helstu kennileita borgarinnar var komið að henni að skemmta sér og þar klikkaði ég ekki frekar en fyrri daginn. Ég var búinn að gúggla skemmtilegustu verslunarmiðstöðvarnar í París og hvar aðalverslunargötuna væri að finna.

Nú hef ég aldrei logið að ykkur og ætla ekki að byrja á því núna. Ég hata að versla! Mér til mikillar mæðu voru útsölur í París og þá meina ég allri París. Þarna horfði ég upp á miðaldra konur rífast um bol úr H&M í stærð 8 og fjórum sinnum lenti ég í því að frönsk kona skammaði mig fyrir að vera fyrir sér. Það eina jákvæða við verslunarferðir mínar nú er að kærasta mín hefur frábæran smekk á fötum, og augljóslega karlmönnum líka, og því þurfti ég ekki annað en að máta nokkrar flíkur og setjast niður á meðan hún fyndi á mig föt, sem mig svo sannarlega vantaði.

París er frábær borg. Maturinn er góður, byggingarnar fallegar og svo var veðrið líka svo gott. Það eina sem hægt er að setja út á borgina er hvað Frakkar eru drepleiðinlegt fólk og það síðasta sem þeim myndi detta í hug væri að læra ensku.

P.s. Við fórum líka á landsleikinn á móti Austurríki en þið vitið öll hvernig hann fór …

Garðar B. Sigurjónsson

Related Posts