Óttar Guðmundsson (68) rýnir í kynlíf fornmanna:

Óttar Guðmundsson geðlæknir liggur sjaldnast á skoðunum sínum og snertir á málum sem eru ekki allra. Nýlega gaf hann út bókina Frygð og fornar hetjur en þar rýnir Óttar í kynlíf og ástir sögupersóna Íslendingasagnanna.
Eru ekki allir sexí? „Ég hef langvinnan áhuga á kynlífi, ég gaf út Íslensku kynlífsbókina árið 1990 sem fjallaði að mestu um kynlífsvanda en nú er ég að kíkja undir voðir fornmanna. Ástamál eru ekki rædd með opinskáum hætti í Íslendingasögunum og því verð ég að rýna á milli línanna og sjá hvað leynist þar,“ segir Óttar Guðmundsson, geðlæknir og rithöfundur.

Bókin Frygð og fornar hetjur kemur í kjölfar bókarinnar Hetjur og hugarvíl en þá rýndi Óttar í geðslag í Íslendingasögunum og greindi geðsjúkdóma og aðra bresti sem mátti sjá í hegðun og atferli frægra sögupersóna, eins og Njáls og Gunnars og fleiri fornkappa.

óttar

GUNNI BEST: Gunnar á Hlíðarenda á stóran hóp aðdáenda, hann er í huga þeirra hin fullkomna hetja, karlmannlegur og sannur íþróttamaður, en var hann elskhugi Njáls? Óttar er á þeirri skoðun en eflaust eru margir sem vilja rökræða við hann um það.

„Ég fer yfir allar Íslendingasögurnar og alla Sturlungu. Ég rýni í textann og velti því fyrir mér hvernig samskipti kynjanna eru. Maður kemst fljótt að því að konur eru eign karlmanna og ættarinnar. Ef eiginmaðurinn deyr þá flyst umráðarétturinn yfir konunni til bróður hennar eða jafnvel sonar hennar. Samfélagið var kvenfjandsamlegt, konur höfðu ekki sjálfdæmi um hverjum þær giftust, það eru dæmi um að synir komi vonbiðlum mæðra sinna fyrir kattarnef. Það er gegnumgangandi djúpstæður ótti við rangfeðrun, samfélagið vildi vernda frjósemi kvenna. Konur voru verðmæti, það skipti höfðingja máli hverjum dætur þeirra giftust og jafnvel frillur þeirra þurftu að hafa góðan ættboga, menn styrktu stöðu sína með fjölda barna. Reglur og lög samfélagsins römmuðu hegðun fólks inn. Íslendingasögurnar eru mjög siðprúðar bókmenntir, ritaðar af kristnum mönnum og munkum og kynlíf er hvergi rætt fjálglega. En menn voru nú samt ekki náttúrulausir ekki frekar en nú.“

Hallgerður með brókarsótt
Sannir aðdáendur Gunnars á Hlíðarenda fyrirgefa Hallgerði seint fyrir það að ljá ekki eiginmanninum streng í bogann á ögurstundu. Henni er flest til foráttu fundið og þykir hið mesta skass.

óttar

HALLGERÐUR MEÐ BRÓKARSÓTT: Hallgerður langbrók var ekki öll þar sem að hún var séð og átti fjölda ástmanna. Femma fatale Íslendingasagnanna.

„Ég er viss um að Hallgerður átti nokkra ástmenn og athygli vekur að þeir deyja allir, hún var sannkölluð femme fatale. Sá ófyrirleitnasti þeirra var án efa Sigmundur Lambason, hann býr hjá Gunnari frænda sínum og heldur við eiginkonu hans, Hallgerði, það þarf ákveðið hugrekki til þess. Bókmenntirnar voru siðprúðar en fólkið ekki.“

óttar

SAMKYNHNEIGÐUR: Þrálátur orðrómur er um að Njáll á Bergþórshvoli hafi verið hommi en það hefur ekki fengist staðfest. Hins vegar er margt sem bendir til þess.

Samkynhneigð var versta ásökun sem hægt var að væna menn um og við henni voru þung viðurlög. Ósjaldan hefur því verið haldið fram að Njáll á Bergþórshvoli hafi verið samkynhneigður og því jafnvel haldið fram að hann og Gunnar á Hlíðarenda hafi átt í ástarsambandi.

„Ég er þess fullviss að Njáll hafi verið upp á karlhöndina og Gunnar líka en um það eru ekki allir sammála, hins vegar er það óumdeilt með Guðmund ríka á Möðruvöllum. Hann vildi hafa unga sæta stráka í kringum sig. Einn af hans drengjum varð ástfanginn af dóttur hans en hann vildi eiga ástmanninn fyrir sig og gat ekki leyft ráðahaginn. Það er margt forvitnilegt þegar rýnt er í textana, áskanir um dýraníð og fleira kemur í ljós. Menn voru ekki náttúrulausir á þessum tíma – ekki frekar en núna,“ segir Óttar Guðmundsson, geðlæknir og sérfræðingur í kynlífi íslenskra fornmanna.

 

Birtíngur, íslendingasögur, ný bók, óttar, Séð & Heyrt, Viðtal, 14. tbl. 2015, geðlæknir, SH1604202625

UPPÁFERÐIR FORNMANNA: Óttar Guðmundsson rýndi í íslenskar fornsögur og las á milli línanna, útkomuna má lesa í bókinni Frygð og fornar hetjar. Í bókinni rýnir hann í kynlífshegðun fornmanna eins og hún birtist í Íslendingasögunum.

Séð og Heyrt – fullt af sögum!

Related Posts