Birna Berg Bjarnadóttir (13) og Magnús Stephensen (13) fermingarbörn voru í óskamessunni sinni:

Það er stór dagur í lífi barna þegar fermingardagurinn rennur upp. Aðdragandinn er langur og heilmikill undirbúningur sem felst í því að vera tekin í fullorðinna manna tölu. Nýverið var bryddað upp á þeirri nýjung í Garðabæ að leyfa fermingarbörnum að ráða því sjálf hvernig messu þau vildu og var niðurstaðan óskamessa barnanna. Þau völdu nýja tónlist og dagskrárliði í messunni. Þau voru með dans sem þau sáu sjálf um, fengu frí frá predikun prestanna en þess í stað kom Ólafur Stefánsson, fyrrum landsliðsmaður í handknattleik, og talaði til þeirra. Jóhanna Guðrún söngkona sá um sönginn í messunni. Þau voru með bænir í sinni umsjón og buðu upp á Krispy Kreme-kleinuhringi í messukaffinu. Birna Berg og Magnús Stephensen eru meðal þeirra fermingarbarna sem tóku þátt í messunni.

 

ELSKAR AÐ SYNGJA Birna er ein af þeim sem mun fermast í vor og elskar að syngja. „Ég er að læra á gítar og að dansa. Mér finnst gaman að læra á hljóðfæri sem hægt er að nota með söngnum. Svo æfi ég dans og leiklist og mér finnst það mjög gaman,“ segir Birna og brosir sínu blíðasta. Birna býr í Garðabæ með mömmu sinni Berglindi og pabba sínum Bjarna og hún á eina eldri systur sem heitir Ylfa.

Birna er ein fermingarbarnanna sem var í undirbúningshópnum fyrir óskamessuna og fór yfir tilurð messunnar. „Séra Jóna Hrönn, sóknarpresturinn í Garðabæ, bað fermingarbörnin um hugmyndir til að skipuleggja messu þar sem fermingarbörn fengju að ráða dagskránni. Ég hlakkaði til að fara í messuna og margar óskir okkar voru uppfylltar. Allir fengu að vera með í hugmyndasmíðinni. Þeir sem vildu sýna dans í messunni fengu það og danskennari samdi dansinn og kenndi okkur. Aðrir voru til dæmis með í skipulagningunni.“

Nýtískuleg og skemmtileg fermingarfræðsla

„Þeir sem skipuleggja tímana í fermingarfræðslunni hafa gert það þannig að það er mjög frumleg, nýstískuleg og skemmtileg leið til að læra um Guð og Jesúm. Við erum að læra um boðorðin tíu sem mér finnst vera mjög mikilvægt til að verða betri manneskjur. Mér finnst mjög gaman í tímum,“ segir Birna og rifjar upp að þau fóru í Vatnaskóg í fermingarfræðslu sem var mjög skemmtileg og gagnleg að hennar sögn. „Það var ótrúlega margt að gera þar og við fórum í bátsferðir, marga leiki og það var mikil afþreying í boði. Til dæmis fótboltaspil, ping pong-borð og svo framvegis. Einu sinni í fermingarfræðslunni vorum við látin fá bauk til að fara og safna peningum í fyrir brunna í Afríku. Við fengum að velja hvaða götur við tókum og ég valdi ásamt vinkonu minni nokkrar götur á Arnarnesinu. En alls náðum við fermingarbörnin að safna yfir fjögur hundruð þúsund krónum,“ segir Birna en ekki eru fleiri stór verkefni fram undan hjá hópnum í bili en Birna vonast til að syngja við messu við tækifæri.

Stóri dagurinn

„Ég mun fermast 26. mars næstkomandi. Mamma valdi daginn vegna þess að ég og hún eigum afmæli þann dag. Þetta verður sem sagt stór dagur þar sem þetta eru tvö afmæli og ein ferming á sama degi,“ segir Birna spennt á svipinn. Tíminn líður hratt og sumir eru farnir að huga að undirbúningi. „Ég er eiginlega ekki búin að pæla mikið í þessu. Fyrir mig snýst þetta um trúna og Guð. Mamma sér eiginlega alveg um allan undirbúninginn.“ Birna er afar fylgin sér og ákveðin að gera vel. „Mér finnst að allir ættu að læra um trú, von, kærleika og fyrirgefningu, eins og ég er að læra um í fermingarfræðslunni, það gerir öllum gott í samfélaginu.“

Óskamessa fermingarbarna

FJÖRUG OG HRESS: Birna Berg Bjarnadóttir var alsæl með óskamessuna.

 

Náttúran og tónlistin

Magnús er einn af þeim sem mun fermast í vor og tók þátt í undirbúningi óskamessunnar. „Ég spila á píanó og hef gert það frá sex ára aldri. Ég er búinn að taka miðstigið í píanónámi og er nú á framhaldsstigi og stefni á að ljúka því. Ég er í skátunum og er að spá í að fara í björgunarsveitina þegar ég hef aldur til. Einnig æfði ég fimleika í Stjörnunni í fjögur ár þegar ég var yngri og svo var ég líka í karate í Breiðablik í tvö ár.“ Magnús hefur alla tíð búið í Garðabæ og býr þar með móður sinni Ragnheiði ásamt kisunni Freyju sem verður bráðum sex ára. „Ég hef gaman af því að vera úti í náttúrunni, fræðast um hluti, læra tungumál, ferðast og fleira í þeim dúr. En ég veit ekkert hvað ég vil verða þegar ég verð stór því það er svo margt sem kemur til greina. Til dæmis langar mig að ferðast um heiminn og spila á píanó. Eins langar mig að vera dýrafræðingur og bara margt fleira,“ segir Magnús íbygginn á svip.

Óskamessan skemmtileg stund

„Tilurð óskamessunnar var sú að þau sem eru með fermingarfræðsluna vildu leyfa okkur að sjá um eina messu. Það fengu allir að koma með hugmyndir og valinn var dans sem sumir skráðu sig í,“ sagði Magnús. Magnúsi finnst tímarnir í fermingarfræðslunni skemmtilegir. „Mér finnst mjög gaman í fermingarfræðslunni og við förum oft í leiki og gerum alls kyns skemmtilega hluti.“

Stóri dagurinn

Magnús er búinn að velja stóra daginn og hann mun fermast sama dag og Birna, 26. mars næstkomandi. „Það er nóg að gera í undirbúningnum fyrir fermingardaginn, við þurfum að fara í fermingartíma, svo þarf líka að kaupa föt og undirbúa veisluna, bjóða gestum og fara í messur,“ segir Magnús og brosir breitt. „Ég hlakka mjög mikið til fermingardagsins, enn meira en ég hlakkaði til óskamessunnar.“

Óskamessa fermingarbarna

MEÐ SITT Á HREINU: Magnús Stephensen var ánægður með útkomu dagsins, óskamessuna góðu.

Óskamessa fermingarbarna

GLÆSILEGAR SAMAN: Jóhanna Guðrún söngkona og séra Jóna Hrönn Bolladóttir voru glaðar og stoltar af krökkunum í tilefni óskamessunnar. Séra Jóna Hrönn sagði að það væri afar metnaðarfullt og öflugt starf sem fram færi í fermingarfræðslunni og krakkarnir væru að læra margt um lífið. Kærleikurinn og lífsgildin væru í forgrunni og mikilvægi þess að vera góð fyrirmynd.

Óskamessa fermingarbarna

GÓMSÆTAR FREISTINGAR: Fermingarbörnin biðu spennt eftir kræsingum dagsins, Krispy Kreme-kleinuhringjunum, eins og sjá má.

Óskamessa fermingarbarna

SYNDSAMLEGA LJÚFFENGT: Óskaveitingar fermingarbarnanna, kleinuhringirnir frægu.

Séð og Heyrt er fermt.

Related Posts