Þegar þetta blað er á leið í prentun er matseðill dagsins þessi:
Minstronesúpa
Hakkabuff með spæleggi
Gratín kartöflur, grænmeti og sósa
Fiskur í karrýsósu
Kartöflur, hrísgrjón og salat
Matur og Kaffi er veitingastaður á jarðhæð í aðalstöðvum Séð og Heyrt í Garðabæ. Þar er opið í hádeginu frá hálftólf til hálftvö og þar borða starfsmennirnir nær því daglega. Veitingasalurinn er vinalegur, málaður í sterkum pastellitum, litlir, heklaðir dúkar eru á borðum auk plastblóma sem kallast í litum á við skærmálaða veggina. Matur og Kaffi minnir dálítið á kaffistaðina þar sem Soprano ræður ráðum sínum með handlöngurum á Long Island í Ameríku.
Nú er ágætt að hafa matsölu á jarðhæð í fyrirtæki sem staðsett er í úthverfi, í gömlu iðnaðarhverfi þar sem engin hefð er fyrir rekstri veitingastaða. Enda streyma viðskiptavinir að, mest iðnaðarmenn og verkamenn í samfestingum merktum fyrirtækjum þeirra; Mannverk, Dekkverk, Frostverk, Alverk, Húsverk og svo framvegis.
Þetta eru menn sem vinna erfiðisvinnu og þurfa sitt. Andstætt blaðamönnunum á Séð og Heyrt sem sitja við tölvur alla daga og reyna að láta sér detta eitthvað sniðugt í hug. En borða þarna samt.
Reynslan sýnir að nýr starfsmaður á Séð og Heyrt þyngist um fjögur kíló fyrsta mánuðinn í starfi og síðan bætast 200 grömm við á mánuði það sem eftir lifir ársins.
Þetta er vandamál sem erfitt er að taka á. Í ólgu hádegishungursins er Matur og Kaffi freistandi og fljótlegur kostur til að ná áttum á ný. James Gandolfini í Soprano hefði borðað þarna með okkur alla daga hefði hann verið meðal vor – en hann dó.
En súperferskur matseðill á Matur og Kaffi gerir lífið skemmtilegra á hverjum degi eins og Séð og Heyrt í
hverri viku.
Eiríkur Jónsson