Díana Arnfjörð (39) er í draumastarfinu:

Díana Arnfjörð hlakkar til að mæta í vinnuna alla daga, sama hvenær sólarhringsins það er. Hana dreymdi um að verða flugfreyja frá því að hún var lítil stelpa, en „villtist“ þó aðeins af leið áður en hún lét drauminn rætast. Í dag er hún fyrsta freyja hjá WOW-air  og ætlar hún aldrei að hætta að fljúga. Díana sinnir starfinu af miklum metnaði og alúð og er oft kölluð Mary Poppins háloftanna því hún er með ráð við öllu. Díana hugsar ekki bara vel um farþeganna heldur dekrar hún við samstarfsmenn sína og er jafnvel með það á hreinu hvernig þeir vilja hafa kaffið sitt. Díana er hin fullkomna flugfreyja.

Bros er tungumálið „Við ætluðum að verða flugmenn saman,“ segir Díana og á þar við sjálfa sig og eiginmann sinn, sem starfar sem tölvunarfræðingur með eigið fyrirtæki. Þær fyrirætlanir breyttust þó, þau eignuðust frumburðinn þegar þau voru ung, fluttu til London og komu síðan heim til Íslands aftur og fluttu síðan til Lúxemborgar þar sem þau bjuggu í tíu ár. „Maðurinn minn var í handbolta og að vinna og svo fórum við á flakk þannig að það varð ekkert úr þessu. En það kæmi mér ekkert á óvart að hann færi seinna í flugið með dóttur okkar.

Í dag eru börnin orðin þrjú, tveir synir, 10 og 20 ára, og dóttir sem er 16 ára. „Dóttir mín er að læra í MR og að læra flug hjá Geirfugli. Yngri sonurinn vill verða flugliði en sá eldri hefur ekki áhuga á að fara í háloftin.“

Eiginmaðurinn vissi ekkert
Díönu hætti aldrei að dreyma um flugfreyjustarfið og þegar hún var búsett í Lúxemborg með yngri soninn nokkurra mánaða gamlan, sá hún auglýsingu þar sem Iceland Express auglýsti eftir flugfreyjum. „Ég sótti um og lét eiginmanninn ekkert vita,“ segir Díana og brosir. Svo kom að því að hún var boðuð í viðtal og skrapp hún því til Íslands. „Síðan þegar ég fékk starfið varð ég auðvitað að láta eiginmanninn vita. Og ég byrjaði á námskeiðinu þegar sonur okkar var bara lítill.“

Díana hefur flogið síðan og myndi ekki vilja gera neitt annað í dag, en hún er þó enn þá að mennta sig. „Ég á einn tölvuáfanga eftir í viðskiptafræðinni og eitt ár í kennó í gamla kerfinu. Núna er ég í fjarnámi í sálfræði við Háskólann á Akureyri af því að mér finnst það nám tengjast svo starfinu. Ég væri til í að enda í fluginu og í starfsmannamálum, ég tími ekki að hætta í fluginu,“ segir Díana. „Ætli ég verði ekki eina 75 ára flugfreyjan.“

Kæru farþegar – velkomnir um borð
Díana segir að flugfreyjustarfið sé ólíkt öðrum störfum sem hún hefur unnið við og sambandið við vinnufélagana nánara. „Þetta verður eins og fjölskylda, eins og í stoppum og svona. Maður kynnist samstarfsfélögunum svo náið og eignast góða vini. Stundum lendir maður í að fljúga mikið með sama fólkinu. Og það eru nokkrar Mary Poppins í starfinu.“

Vinnufélagarnir vinna ekki bara saman. Þeir hittast utan vinnu og er Díana í saumaklúbbi með nokkrum þeirra. „Svo fórum við í jóga. Maður verður að passa vel upp á heilsuna í þessu starfi,“ segir Díana. „Fyrir mér er góður endir á erfiðu eða skemmtilegu flugi að fara í betri stofuna í „World class eða í sogæðanudd. Það hjálpar mér rosa mikið,“ segir Díana.

Fullkomin fluffa
„Að mínu mati þarf hún að vera tilbúin að takast á við allskonar verkefni, brosa, vera þolinmóð, geta verið bæði A- og B-manneskja, jákvæð og skemmtileg. Þú þarft ekki að vera með fimm háskólapróf. Mér finnst voða gott að vera með menntaða hjúkrunarfræðinga um borð. Við lærum samt öll öryggisatriði, skyndihjálp einu sinni ári,“ segir Díana, „og símenntun í starfinu er mikil og góð.“

Samstarfsfélagarnir tala líka vel saman og miðla reynslunni á milli, bæði góðri og slæmri. „Ef  við lendum í einhverju þá fá hinar að frétta það og hvernig brugðist var við. Þetta starf er svo mikið „team-work“, þú þarft að vera svo góður í því að vinna með öðrum.“

Díana er fyrsta freyja en segir að þó að hún sé yfir þá líti hún á starfið sem samstarf. „Ég segi sem dæmi: „Ég er fyrirliðinn í dag, mig vantar markmann og skyttu sitt hvorum megin svo leikurinn gangi upp,“ svo við erum öll á sama plani.“

Enginn dagur eins
Hjartastopp frá Alicante er það erfiðasta sem komið hefur fyrir á vakt hjá Díönu, „en við vorum það heppin að það var læknir og hjúkrunarfræðingur um borð. Við hittum þennan farþega um daginn og hann bauð okkur út að borða, alveg yndislegur,“ segir Díana. En þó að atvik eins og hjartastoppið geti komið fyrir þá eru þau sem betur fer ekki algeng, flestar vaktir ganga sinn vanagang.

Taskan góða
Díana hefur verið kölluð Mary Poppins háloftanna vegna flugfreyjutöskunnar hennar en í henni leynist ýmislegt. Ekkert af dótinu sem þar leynist eru hlutir sem flugfélög gera kröfur um að flugfreyjurnar þeirra séu með heldur hefur Díana bara bætt í hana ýmsum hlutum sem hún hefur lært í starfinu að geti létt farþegum hennar flugið eða bætt einhverju „extra“ við ferðina til að gera hana eftirminnilegri. Sem dæmi um nokkra hluti má nefna snuð. „Við vorum einu sinni með barn sem grét svo mikið og var búið að týna snuðinu sínu, þannig að ég er með eitt slíkt og ónotað í töskunni,“ segir Díana. Hún fór einnig í Blindrafélag Íslands og bað þá að gera fyrir sig leiðbeiningar um öryggisatriði á blindraletri, hún er einnig með skrifað hjá sér hvernig allir flugmennirnir vilja kaffið sitt, enda sparar það henni að spyrja þá í hvert sinn. Og fyrir heyrnarlausa útbjó hún miða sem hún afhendir þeim þar sem fram kemur lengd flugtíma og „velkomin um borð“ kveðjan sem við sem heyrandi erum tökum eftir þegar lagt er af stað í flug.

„Mér líður bara rosalega vel þegar bæði ég og farþegarnir eru ánægðir,“ segir Díana og brosir og ljóst er að þarna fer kona sem elskar starfið sitt og viðskiptavinina og býr yfir þessum þætti sem allir góðir starfsmenn búa yfir.

SH1609017542-1

FLOGIÐ Á VIT NÝRRA ÆVINTÝRA „Bros er tungumál sem allir skilja,“ segir Díana og hún er svo sannarlega með heillandi bros sjálf og sjarmerandi. „Það er enginn dagur alveg eins. Þú kynnist ótrúlega miklu af fólki frá öllum löndum,“ segir Díana. „Hjá WOW-air er svo mikið af frábæru starfsfólki. Ég hlakka til að fara í flug, hvort ég er að fara að fljúga með nýju fólki eða gömlum félögum. Mér finnst alltaf gaman að fara í vinnuna alveg sama hvað klukkan er. Hver dagur færir nýja áskorun. Ég hlakka mest til að lenda í fæðingu um borð.“

SH1609017542-4

HEFÐBUNDINN VINNUDAGUR FLUGFREYJU: „Í gær fór ég upp í rúm kl. 20.00, en þegar við förum í morgunflug svona snemma þá er ég komin upp í rúm snemma, gott að ná góðum svefni og þá vakna ég um 1 klst. áður en við erum sótt. Þegar ég var að byrja að vinna við þetta þá voru það alveg tveir tímar fyrir, þá var aðeins meira stress, en já núna vakna ég 50- 60 mínútum fyrir. Það tekur mig um eina og hálfa mínútu að setja upp hárið og um fimm mínútur að gera andlitið tilbúið svo þetta er innan við tíu mínútur. Þá er megnið búið þegar ég er búin með þetta. Síðan hita ég mér egg til að taka með mér og nesti í flug og fæ mér lýsi, vatn og smávegis morgunmat, skelli mér svo í uniformið, skil eftir post it-miða fyrir fjölskylduna hvað þarf að muna í dag og fer yfir hvort ég sé ekki örugglega með allt það sem ég þarf. Ég er komin í pick up allavega tíu mínútum áður en rútan fer, þá hef ég tíma til að redda mér ef eitthvað hefur gleymst og hlusta á góða tónlist, syng mig í gang. Þetta kenndi hún vinkona mín Edda Björgvins okkur. Síðan hitti ég starfslið mitt, við förum yfir flugið, hvert við erum að fara, flugtíma og tölum um öryggisbunað og skyndihjálp og byrjum ballið (flugið). Í dag fer ég til Frankfurt. Það sem er skemmtilegt við starfið er að við förum út um allt, ekki alltaf á sömu staðina. Þegar flugið er búið þá er best að fara úr uniforminu, (þá sérstaklega taka hárið niður og fara úr sokkabuxunum) skella sér í World Class Laugum eða til Rósu í Líkamslögun í smánudd, síðan tekur mömmulífið við.“

 

SH1609017542-2

DÍANA ATHUGAR HVORT AÐ ALLT SÉ MEÐ Í TÖSKUNNI GÓÐU: Það er ýmislegt sem leynist í töskunni góðu og Díana grípur oft með sér í næstu búðarferð hluti sem farþegar spyrja um en eru ekki til um borð. Sem dæmi má nefna að einn farþegi gleymdi lesgleraugum heima og núna leynist eitt par í töskunni. Meðal annarra hluta má nefna liti og litablöð, spil, súrefnismæli, blóðþrýstingsmæli, snuð, bleyjur, brunagel, allskonar plástra, nikótíntyggjó, teppi, gamla hattinn hennar Díönu, („margir stilla sér upp við hurðina áður en þeir ganga inn og þá er gaman að henda hattinum á hausinn á þeim“), eyrnatappa, blindraletur, kórónur, lítil kort sem skrifa má á og óska fólki til hamingju með afmælið/brúðkaupsdaginn eða annað.

SH1609017542-3

Díana flugfreyja

BRUGÐIÐ Á LEIK „Það er svo gaman hjá WOW-air og stundum fáum við að leika okkur aðeins,“ segir Díana. „Eins og fyrir leikinn Ísland-Frakkland á EM í sumar þá klæddum við okkur upp í búninga og tókum lagið um borð.“

Séð og Heyrt – elskar að fljúga með frábærum flugþreyjum og -þjónum.

 

Related Posts