Landsliðsmarkvörðurinn Florentina Stanciu (32) er með tískuna á hreinu:

Hún er stórglæsilegur fulltrúi Íslendinga í marki kvennalandsliðsins í handbolta. Florentina Stanciu hefur verið búsett hér á landi frá árinu 2004 en hún er frá Rúmeníu. Florentina er ákaflega glæsileg og minnir á ofurfyrirsætu, enda hávaxin og grönn. Hún hefur persónulegan en samt alþjóðlegan stíl og gefur stórstjörnum ekkert eftir í útliti og stíl.

Flott „Ég hef gaman af fallegum fötum og vil klæðast sportlega en líka kvenlega. Ég er í æfingafötum mestan part úr deginum og mér finnst gaman að breyta til þegar ég er ekki á æfingu,“ segir Florentina glaðbeitt.

IMG_1701

SÖNN SKVÍSA: Florentina Stanciu er virkilega glæsileg og líkist helst kvikmyndastjörnu.

Mikið keppnisskap
„Ég leyni því ekkert að ég er mikil keppnismanneskja, ég þoli ekki að tapa. Ég er mjög metnaðarfull og tek tapleikjum ekki vel. Ég get verið lengi að jafna mig eftir erfiðan leik. Ég er metnaðarfull og vil leggja hart að mér til að ná langt í íþróttinni. Ég spilaði með Stjörnunni í vetur, við vorum með blandað lið af ungum leikmönnum og eldri. Við urðum í öðru sæti á Íslandsmótinu, Grótta vann titilinn í ár. Stjarnan hefur í gegnum árin verið sigursæl og okkur almennt gengið mjög vel.“

IMG_1710

GLÆSILEG Í GRÆNU: Þessi sumarkjóll er í flottum retro-stíl og fer Florentinu sérstaklega vel.

Stolt af landsliðinu
„Ég fékk íslenskan ríkisborgararétt fyrir tveimur árum, ég hef verið á Íslandi í meira en tíu ár og líkar mjög vel hér. Ég spila með landsliðinu og er virkilega stolt af því. Ég reyni alltaf að gera mitt best og legg mig fram fyrir land og þjóð.“
Aðspurð segist Florentina ekki vera á förum héðan. „Mér líður vel hér, við maðurinn minn erum sátt hér og það er gott að ala upp barn á Íslandi en hvað framtíðin ber í skauti sér verður að koma í ljós,“ segir Florentina skælbrosandi.

Related Posts