Bergljót Arnalds (46) býr í gamalli stálsmiðju:

DÍVAN: Bergljót fór á kostum þegar hún söng eigin lög og önnur sem dívur eins og Edith Piaf og Marilyn Monroe hafa gert ódauðleg.

Leikkonan og rithöfundurinn Bergljót Arnalds hefur komið sér upp glæsilegu heimili í gamalli stálsmiðju í Kópavogi. Þangað bauð hún vinum og kunningjum á heimatónleika í tilefni afmælis síns. Þar tók hún meðal annars lög sem dívurnar Edith Piaf og Marylin Monroe gerðu fræg en sjálfri hefur henni verið líkt við Monroe og sögð vera hin íslenska Monroe.

 

Glæsileg Vinir og ættingjar leikkonunnar Bergljótar Arnalds heimsóttu hana í gömlu járnsmiðjuna í Kópavogi á afmælisdaginn þar sem hún steig sjálf á stokk og söng fyrir gestina á vel heppnuðum heimatónleikum á hinu mjög svo huggulega heimili hennar.

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég held heimatónleika,“ segir Bergljót. „Þetta var dásamlegt og gaman að fá að fagna deginum svona. Afmælisgestirnir fóru vel með mig og píanistinn fór á kostum. Ásamt eigin lögum flutti ég líka lög sem Marilyn Monroe og Edith Piaf hafa gert fræg.“

Bergljót Bergljót

VINKONUR: Afmælisbarnið á milli frænkna sinna og vinkvenna, Laufeyjar Arnalds Johansen og söng- og leikkonunnar Sigrúnar Waage.

Steindór Dan Jensen lék á flygilinn og Bergljót segir að eftir hlé hafi hitnað vel í salnum og hún tók gólfið þá með stæl.

„Þetta er skemmtilegur tónleikastaður því það er hátt til lofts og útsýni yfir sjóinn, en ég bý í gamalli stálsmiðju sem ég hef innréttað sem íbúð. Það er aldrei að vita nema maður láti verða aftur af þessu. Það væri stórskemmtilegt að hafa menningarmiðstöð í vesturbæ Kópavogs.“

Bergljót afþakkaði afmælisgjafir en gestum sem vildu styrkja útgáfu hennar á frumsömdum lögum á diskinum Heart Beat gátu lagt í púkkið með framlögum í hjartalaga bauk. „Diskurinn heitir Hjartsláttur þar sem sum lögin eru byggð á upptökum að slætti hjartans.“

Bergljót er nýkomin frá Jótlandi. „Þar sem ég flutti frumsamið lag um son Venusar, ástarengilinn Cupid. Hann er svo stríðinn og er alltaf að skjóta örvum í hjarta fólks. Hvað varðar framtíðina þá er stefnan að njóta þess að láta jörðina snúa sér í einn hring á dag. Hver hringur er gjöf með óvæntum uppákomum og vonandi fær maður að halda áfram að snúast í dágóðan tíma í kringum sólina,“ segir Bergljót, þakklát fyrir lífið, en hún lenti í slysi fyrir þremur árum og hryggbrotnaði á tveimur hryggjarliðum.

 

Related Posts